Alveg óbreytt staða gagnvart ESB

Öll rök gegn því að Íslendingar gangi í Evrópusambandið (ESB) standa óhögguð, segir Þórður Gunnarsson hagfræðingur. Teitur Björn Einarsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, er sama sinnis og segist ekki átta sig á því hvers vegna ófriður í Úkraínu ættu að knýja á um aðildarumsókn Íslands. Öryggi og varnir landsins séu tryggðar af Atlantshafsbandalaginu.

Þetta kemur fram í viðtali við þá í Dagmálum, þar sem afleiðingar árásar Rússa í Úkraínu fyrir Íslendinga voru brotnar til mergjar. Dagmál eru streymi Morgunblaðsins, opið öllum áskrifendum, en horfa má á þáttinn allan með því að smella hér

Teitur Björn segir að stríðið hefði engu breytt um hagsmuni og stöðu Íslands. Evrópusamstarfið væri mikið nú þegar, bæði með EES, Schengen-samvinnunni og fleiru. Þegar því væri haldið fram af þingmönnum í Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum, væri stríðið fyrirsláttur og til þess fallið að afvegaleiða umræðuna.

Þórður gekk raunar lengra og sagði að tímasetningin aðildarumsóknar nú væri sérstaklega slæm. Stríðið í Úkraínu hefði mjög aukið á óvissu um fæðuöryggi í heiminum, sem valda myndi frekari verðhækkun á matvöru og fóðri. „Með því að ganga í Evrópusambandið værum við að gefa frá okkur helminginn af próteininu okkar,“ segir Þórður og vísar þar til fiskveiða, sem falla myndu undir sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB og opna miðin fyrir fiskveiðiflotum annarra Evrópusambandsríkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert