Göng slegin af vegna kostnaðar og óvissu

Kostnaður og óvissa vegna jarðfræðilegra ástæðna var ástæða þess að …
Kostnaður og óvissa vegna jarðfræðilegra ástæðna var ástæða þess að þáverandi ríkisstjórn ákvað árið 2007 að leggja öll áform um jarðgöng til Vestmannaeyja á hilluna. Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson

Mikill kostnaður og óvissa vegna jarðfræðilegra aðstæðna var ástæða þess að þáverandi ríkisstjórn ákvað á árinu 2007 að leggja öll áform um jarðgöng til Vestmannaeyja á hilluna. Í staðinn var lögð áhersla á byggingu ferjuhafnar í Landeyjum. Þá hafði umræðu um verkefnið verið haldið vakandi í nærri tvo áratugi.

Árni Johnsen alþingismaður kom hugmyndinni um jarðgöng undir sjó til Vestmannaeyja inn í umræðuna á árinu 1989 þegar þingsályktunartillaga hans og nokkurra annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að láta gera forkönnun á gerð tveggja akreina jarðganga var samþykkt. Eftir það voru gerðar ótal athuganir og skýrslur á vegum hins opinbera og áhugamanna í Eyjum.

Borað frá Krossi

Niðurstöður starfshópa á vegum ríkisins var sú að huga frekar að ferjuhöfn í Bakkafjöru sem myndi stytta mjög leiðina fyrir Herjólf.

Athuganir bentu til að hagkvæmasta staðsetning gangamunna landmegin væri við Kross í Landeyjum. Í aðalskipulagi Vestmannaeyja er gert ráð fyrir að göngin komi að Heimaey norðvestanverðri, undir Hána, og opnist inn á gatnakerfið við Friðarhöfn. Göngin yrðu þá 18,5 kílómetrar að lengd.

Hugmyndir um aðrar útfærslur en boruð eða sprengd jarðgöng, til dæmis botngöng sem eru í raun stokkur á hafsbotninum eða flotgöng, voru fljótt slegnar út af borðinu vegna kostnaðar.

Eins og kemur fram í skýrslu starfshóps samgönguráðherra frá árinu 2006 voru gerðar ýmsar jarðfræðirannsóknir, bæði almennar og með tilliti til jarðgangagerðar. Allar báru þær með sér að mikil óvissa væri um áhættuna, meðal annars með tilliti til staðsetningar ganganna í nágrenni eldvirks svæðis. Ef halda ætti áfram með málið þyrfti að ráðast í kostnaðarsamar rannsóknir.

Mismunandi kostnaðarmat

Kostnaðaráætlanir voru mjög mismunandi. Vegagerðin fékk Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen til að leggja mat á kostnaðinn. Niðurstaðan var að tæknilega væri mögulegt að gera slík göng og að kostnaðurinn yrði líklega á bilinu 50-80 milljarðar króna, eftir gerð ganga, en áhætta talin mikil.

Skýrsluhöfundar sögðu að ef ákveðið yrði að vinna áfram að málinu yrðu næstu skref ítarlegri jarðfræðilegar og jarðtæknilegar rannsóknir sem miðuðu að því að draga úr óvissu um verkefnið. Rannsaka þyrfti berglög norðan við Heimaey og aðstæður á Landeyjasandi og afla miklu meiri upplýsinga um berglög á gangaleiðinni. Slíkar rannsóknir myndu kosta allt frá 115 til 275 milljóna króna.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert