Fundurinn boðaður einni mínútu of seint

Frá Hveragerði.
Frá Hveragerði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slíta þurfti bæjarstjórnarfundi í Hveragerði á þriðjudaginn og boða til nýs fundar vegna þess að fundarboð barst ekki með lögmætum fyrirvara.

Fundarboðið barst einni mínútu of seint. Það barst klukkan 17.01 á þriðjudag vegna fundar sem átti að halda klukkan 17 í dag. Fundarboð eiga að berast ekki síðar en tveimur sólahringum fyrir  fund. 

„Fulltrúi O-listans sem gagnrýndi mjög stjórnsýslu Hveragerðisbæjar undir stjórn D-listans síðustu ár og er nú kominn í meirihluta kallaði þetta tittlingaskít vegna þess að það munaði 1 mínútu, það kann vel að vera að það sé rétt, en lög eru lög," skrifar Friðrik Sigurbjörnsson, sem situr í bæjarstjórninni fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Hann bendir á að fundarboð skuli berast sveitarstjórnarmönnum ekki síðar en tveimur sólarhringum fyrir fund og því hafi fundurinn talist ólögmætur þar sem það hafi ekki náðst í tæka tíð.

Í bókun bæjarstjórnarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna málsins segir:

„Ljóst er að ekki var boðað til þessa bæjarstjórnarfundar með lögmætum fyrirvara, en fundarboð barst bæjarfulltrúum og varamönnum þeirra kl. 17:01 þriðjudaginn 12. júlí 2022 fyrir bæjarstjórnarfund sem halda á kl. 17:00 fimmtudaginn 14. júlí 2022. Samkvæmt 15. gr. Sveitarstjórnarlaga númer 138/2011 segir „Fundarboð skal berast sveitarstjórnarmönnum ekki síðar en tveimur sólarhringum fyrir fund.”. Þá kemur einnig fram í 9. gr. Samþykkta um stjórn Hveragerðisbæjar „Fundarboð skal berast bæjarfulltrúum ekki síðar en tveimur sólarhringum fyrir fund.”. Því telst þessi bæjarstjórnarfundur ólögmætur og legg ég til að boðað verði til nýs bæjarstjórnarfundar með lögmætum hætti."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert