Tillagan sé ekki framkvæmanleg

Halldóra Mogensen er ósátt með frumvarp Willums.
Halldóra Mogensen er ósátt með frumvarp Willums. mbl.is/Unnur Karen

Halldóra Mogensen, formaður þingflokks Pírata, segir tillögu heilbrigðisráðherra um afnám refsingar vegna neysluskammta fyrir veikasta hópinn ekki vera framkvæmanlega. „Ætla þau að vera með einhverja fíklaskrá ríkisins?“ spyr hún.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hyggst leggja fram frumvarp um afnám refsingar fyrir „veikasta hóp samfélagsins í tilteknum tilvikum með tiltekið magn og efni ávana- og fíkniefna“ og hafa áformin verið birt í samráðsgátt stjórnvalda.

Að mati Halldóru dugar ekki að breyta um stefnu fyrir einhvern lítinn, tiltekinn, niðurnjörvaðan hóp. Það þurfi að gera það fyrir alla.

Refsistefnan skaðleg

Halldóra bendir á að áratuga reynsla af núverandi refsistefnu sýni okkur að hún sé skaðleg. Hún hafi ekki þau áhrif að draga úr neyslu og hún jaðarsetji fólk þar að auki.

„Við vitum að þessi stefna er ekki að virka og það er ótrúlega furðuleg nálgun að ætla að afnema skaðlega stefnu bara fyrir hluta vímuefnaneytenda. Það bendir til þess að það sé lítill skilningur á málefninu sem er verið að kljást við, sem náttúrulega lofar ekki góðu,“ segir Halldóra og bætir við:

„Eða þá að þetta sé eitthvert skítamix í einhverju samráðsferli.“

Hún bendir á að fulltrúar stórs hluta refsivörslukerfisins séu inni í þessum starfshópi, svo hún veltir fyrir sér hvort verið sé að gera einhverjar málamiðlanir þar.

Segir ólöglegt að merkja hópinn sérstaklega

Júlía Birgisdóttir, formaður Snarrótarinnar, samtaka um skaðaminnkun og mannréttindi, gagnrýnir tillögu heilbrigðisráðherra einnig í Morgunblaðinu í dag og segir m.a.:

„Ef ríkisstjórnin ætlar að leggja fram frumvarp til þess að þessi hópur verði merktur einhvern veginn inni í kerfinu er það líka ólöglegt. Við eigum öll að vera jöfn fyrir lögum.“

Lengri umfjöllun um málið er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert