Boðar til lýðheilsuþings

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra boðar til þingsins.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra boðar til þingsins. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Heilbrigðisþing verður haldið 10. nóvember á hótel Hilton Reykjavík Nordica og að þessu sinni verður það helgað lýðheilsu. Er það Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sem boðar til þingsins.

Viðburðurinn verður opinn öllum en fulltrúar heilbrigðisstofnana, fræðasamfélagsins, sveitarfélaga, skólanna, íþróttahreyfingarinnar og annarra félagasamtaka eru sérstaklega hvattir til þátttöku, að því er fram kemur í tilkynningu Stjórnarráðsins.

Kæri viðtakandi.

Heilbrigðisþing hafa verið haldin árlega frá árinu 2018 þegar gildandi heilbrigðisstefna til ársins 2030 var í mótun. Þingin hafa verið tileinkuð mikilvægum málefnum sem varða heilbrigðiskerfið og skipulag heilbrigðisþjónustu. Í ár hef ég ákveðið að helga þennan árlega viðburð lýðheilsu og boða því til lýðheilsuþings 10. nóvember næstkomandi. Þar verður einstaklingurinn í forgrunni með áherslu á allt það sem við getum sjálf gert til að efla, vernda og viðhalda góðri heilsu. Jafnframt verður fjallað um hvernig stjórnvöld og stofnanir samfélagsins geta með ákvörðunum sínum og aðgerðum skapað almenningi sem bestar aðstæður til heilsueflingar á öllum æviskeiðum.

Alþingi samþykkti á síðasta ári lýðheilsustefnu til ársins 2030. Stefnan á sér stoð í heilbrigðisstefnu þar sem fram koma þau markmið að lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir verði hluti af allri heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt lýðheilsustefnu skulu stjórnvöld stuðla að því að landsmenn verði meðvitaðir um ábyrgð á eigin heilsu, m.a. með fræðslu og vitundarvakningu um gildi forvarna og heilsueflingar, svo sem á sviði næringar, hreyfingar og geðræktar. Liður í því er að tryggja fólki greiðan aðgang að hagnýtum og gagnreyndum upplýsingum um þessi efni sem auðvelda hverjum og einum að stunda heilbrigðan lífsstíl og viðhalda heilsu sinni eða bæta hana.

Verkefnahópur vinnur nú að mótun aðgerðaáætlunar um framkvæmd lýðheilsustefnu og er gert ráð fyrir að nýta afrakstur lýðheilsuþingsins inn í þá vinnu. 

Lýðheilsuþingið 10. nóvember verður haldið á hótel Hilton Reykjavík Nordica kl. 8.30 – 16.30. Nánari upplýsingar eru á heilbrigdisthing.is og þar fer einnig fram skráning þátttöku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert