Tekur vel í gjaldið en útilokar ekki vegtolla

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Umhverfis- og samgöngunefndar.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Umhverfis- og samgöngunefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Árnason, formaður Umhverfis- og samgöngunefndar, tekur vel í tillögu Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) um kílómetragjald. Hann segir að gjaldið sé góður grunnur að fjármögnun vegakerfisins en þó séu vegtollar ekki alfarið úr myndinni.

„Ég fagna því að bifreiðaeigendur komi með svona tillögu og hugsi í lausnum,“ segir Vilhjálmur við mbl.is.

„Ég tek vel í það að við einföldum gjaldtöku í umferð í eitt kílómetragjald og ég held að það skipti máli að við vinnum hratt í því að innleiða þessar tillögur eða eitthvað í takt við þær.“

Hann telur að kílómetragjald gæti orðið sanngjörn leið til að fjármagna uppbyggingu og rekstur vegakerfisins. „Það er nauðsynlegt að finna leiðir til að fjármagna vegakerfið og nauðsynlegt að það sé einfalt kerfi og gagnsætt kerfi.“

„Ríkið þarf ekki að standa að öllum samgönguframkvæmdum“

Vilhjálmi finnst þó að enn megi hafa vegtolla til sértækrar gjaldtöku. Á einstökum stöðum myndi þá vera gjaldtaka til þess að fjármagna ákveðnar framkvæmdir. Hann segist jafnvel ímynda sér að einkaaðilar geti komið að framkvæmdum.

„[Kílómetragjaldið] er svona almenn grunnfjármögnun að uppbyggingu vegakerfisins og reksturs þess en ef það eru einhverjar einstakar framkvæmdir þá finnst mér allt í lagi að fjármagna þær tímabundið með veggjöldum enda verða þær gerðar betur úr garði. Þá koma þær fyrr og það verður betri þjónusta á þeim.“ segir hann.

FÍB kýs kílómetragjald frekar en vegtolla.
FÍB kýs kílómetragjald frekar en vegtolla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég sé meira að segja fyrir mér að fjárfestar og verktakar geti sameinast um það, hvort sem það er með sveitarfélagsyfirvöldum eða skipulagsyfirvöldum á hverjum stað, að byggja samgöngumannvirki og bæði fjármagni það og rukki inn á það. Ríkið þarf ekki að standa að öllum samgönguframkvæmdum.“

Mótfallinn „umferðar- og tafagjaldi“

Hann kveðst gjörsamlega mótfallinn svokölluðu umferðar- og flýtigjaldi, sem hann segir ekkert annað en „umferðar- og tafagjald“. Hann segir að í slíkum tilfellum yrði gjaldtaka inn á einhver svæði án þess að ökumaður fengi að vita hverjar samgönguframkvæmdir væru, gjaldtakan væri til að fjármagna.

Það sem hann horfir sérstaklega til í sértækri gjaldtöku er að fá ferðamenn til þess að borga framkvæmdir í auknum mæli, enda sé „það út af tilkomu hans [ferðamannsins] sem að innviðaskuldin er að stækka meira.“

„Ég tel það bara mikilvægt að við komum á almennu gjaldtökunni og byrjum þar. Svo tökum við umræðuna um hverja framkvæmd fyrir sig, hvort það sé rétt að leyfa sértæka gjaldtöku á henni eða ekki. Þegar að því kemur og þegar við vitum um hvað við erum að tala.“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert