„Gríðarlega stór tíðindi“

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, segir kynningu ráðherranna í fyrradag mikil …
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, segir kynningu ráðherranna í fyrradag mikil tíðindi. mbl.is/Arnþór

„Þetta eru náttúrulega gríðarlega stór tíðindi verður að segjast,“ svarar Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, spurður út í heildstæða áætlun um uppbyggingu innviða heilbrigðiskerfisins til ársins 2030 sem forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra kynntu í fyrradag.

Fóru ráðherrarnir þar yfir stöðu Landspítalaverkefnisins og áætlun um áframhaldandi fjárfestingu í innviðum heilbrigðiskerfisins. Létu þeir þess getið að uppbygging Landspítalans væri langtímaáætlun sem tæki tillit til þróunar og breyttra þarfa í heilbrigðisþjónustu. Væri henni ætlað að byggja undir velsæld þjóðarinnar og fæli í sér heildarfjárfestingu fyrir um 210 milljarða króna, dreift yfir tímabilið.

„Skort hefur á kynningu og umræðu um verkefnið í heild,“ heldur Runólfur áfram, „umræðan hefur snúist mjög mikið um meðferðarkjarnann til þessa, sem er stærsta framkvæmdin í fyrsta áfanga, meðferðarkjarninn og rannsóknarhúsið, en eitthvað hefur borið á áhyggjum af því að meðferðarkjarninn muni ekki nægja fyrir bráðaþjónustuna,“ segir hann.

Kjarninn sé hins vegar bara hluti nýja spítalans og gríðarlega margir aðrir framkvæmdaþættir sem snúi að því að skapa heildarmynd af spítalanum. „Þar kemur inn þessi svokallaði áfangi tvö sem lítið hefur verið fjallað um til þessa, umræðan hefur öll snúist um áfanga eitt sem er meðferðarkjarni, rannsóknarhús, bílastæða- og tæknihús,“ segir forstjórinn enn fremur.

Framkvæmdasvæði nýs Landspítala við Hringbraut. Runólfur segir nýja spítalann munu …
Framkvæmdasvæði nýs Landspítala við Hringbraut. Runólfur segir nýja spítalann munu valda straumhvörfum og í raun byltingu í íslensku samfélagi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bæta þurfi aðstöðu dag- og göngudeilda

Hafi sjúkrahótelið verið fyrsti hluti þessa en einnig hafi verið talað um að nýbyggingu þyrfti fyrir geðþjónustu þar sem það húsnæði sem hún hefur búið við sé svo til úrelt en þar hafi orðið mikil þróun við sköpun svokallaðs batamiðaðs húsnæðis sem styðji við þjónustuna.

„Það kallar á nýbyggingu, það kemur afdráttarlaust fram að ráðast þurfi í sérstaka byggingarframkvæmd fyrir þá starfsemi,“ segir Runólfur og nefnir í framhaldinu dag- og göngudeildir sem séu mjög umfangsmikill hluti af starfsemi spítalans. Þjónustan hafi færst mjög mikið yfir í það form og muni gera það í auknum mæli áfram. Aðstöðu fyrir þá þjónustu sé nauðsynlegt að bæta svo um muni.

„Inni í þessu er til dæmis krabbameinsþjónustan sem fer mjög vaxandi. Þetta er þessi annar áfangi og núna er fram undan endurskoðun á þarfagreiningu fyrir þann áfanga, í hana verða fengnir erlendir ráðgjafar. Nú fer líka þáttur stjórnenda og starfsfólks spítalans í þessu verkefni vaxandi, eftir því sem nær dregur og við förum að skapa þá mynd sem við viljum fá á þennan nýja Landspítala svo hann komi að sem bestum notum fyrir samfélagið,“ segir Runólfur.

„Legurýmin sem við búum við í dag eru takmörkuð og …
„Legurýmin sem við búum við í dag eru takmörkuð og það skapar erfiða aðstöðu á bráðamóttöku,“ segir forstjórinn. mbl.is/Árni Sæberg

Muni valda straumhvörfum

Bendir hann á að efnisatriði kynningarinnar á mánudaginn hafi ekki komið fram áður og heyri því til mikilla tíðinda. Séu þar lagðar fram áætlanir um fjármögnun fyrsta áfanga spítalans að fullu og drög að fjármögnun annars áfanga. „Þessi nýi spítali mun valda straumhvörfum og í raun byltingu fyrir þá sem njóta þjónustunnar og starfsfólkið líka sem starfar í dag við mjög erfiðar aðstæður.“

Hvað er ellegar títt af daglegum rekstri stofnunarinnar?

„Staðan er bara svipuð og hún hefur verið, við erum náttúrulega með mikið af verkefnum sem við höfum margoft fjallað um, fólki fjölgar og þau verkefni, sem spítalinn þarf að sinna, aukast. Legurýmin sem við búum við í dag eru takmörkuð og það skapar erfiða aðstöðu á bráðamóttöku, það er auðvitað leiðinlegt að vera að segja þetta aftur og aftur en þetta er bara sama staðan,“ svarar Runólfur.

Gamla spítalahúsið við Hringbraut sem Guðjón Samúelsson húsameistari teiknaði og …
Gamla spítalahúsið við Hringbraut sem Guðjón Samúelsson húsameistari teiknaði og tekið var í notkun árið 1930. mbl.is/Ómar Óskarsson

Enn vanti aukin þjónustuúrræði fyrir aldraða á höfuðborgarsvæðinu sem komi niður á spítalanum þar sem hörgull verði á legurýmum fyrir vikið.

„En starfsfólkið stendur sig gríðarlega vel við þessar aðstæður þannig að þetta gengur sinn vanagang ef við getum orðað það svo,“ segir Runólfur Pálsson forstjóri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka