Fjármögnun varnargarðs í Neskaupstað óljós

Snjóflóð féll í Neskaupstað í síðasta mánuði.
Snjóflóð féll í Neskaupstað í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skipulagsgerð vegna fjórða og loka hluta varnargarða í Neskaupstað mun ljúka á haustdögum á þessu ári og í framhaldinu verður ekkert því að fyrirstöðu að farið verði í útboðsgerð vegna framkvæmda að sögn Jóns Björns Hákonarsonar, fyrrverandi bæjarstjóra Fjarðarbyggðar.

Hann segir þó alls óljóst hvort fjármagn verði til staðar til að fara í framkvæmdir. 

Hönnun á lokahluta varnargarðaverkefnisins í Neskaupstað við Nes- og Bakkagil var kynnt í síðasta mánuði en þessi lokahluti hefði meðal annars varið þau hús þar sem snjóflóð féll á í síðasta mánuði. 

Jón Björn er þessa dagana að ganga frá lausum endum í embætti og hefur látið sig málefni varnargarða varða en Jóna Árný Þórðardóttir tók við sem bæjarstjóri fyrir skömmu. 

Jón Björn Hákonarson, er fyrrum bæjarstjóri í Fjarðarbyggð.
Jón Björn Hákonarson, er fyrrum bæjarstjóri í Fjarðarbyggð. Ljósmynd/Fjarðabyggð

Þarf að vera fjármagn í fjárlögum 

Fjármögnun verkefnisins er með öllu óljós að sögn Jóns Björns. Fjármögnun ofanflóðasjóðs er m.a. fjármögnuð með brunatryggingum og að sögn hans hefur mun meira verið greitt til sjóðsins en hefur farið úr honum.

„Það er hægt að setja þetta allt saman í gang en þá þarf að vera fjármagn á fjárlögum til að standa undir framkvæmdinni,“ segir Jón Björn. 

„Auðvitað er að mörgu að hyggja þegar kemur að forgangsröðun í framkvæmdum ríkisins en manni finnst að öryggisframkvæmdir eigi ekki að sitja á hakanum,“ segir Jón Björn.

Átti að vera lokið árið 2010

Hættumat fyrir byggðir á Íslandi lá fyrir árið 1999. Upphaflega stóð til að öllum flóðavörnum yrði lokið árið 2010. Því var svo frestað til 2020 en lokadagsetning hefur nú verið sett 2030. Fyrsti varnargarðurinn í Neskaupstað var settur upp við Drangagil árið 2002. Næsti garður við Tröllagil var fullgerður árið 2013. Gerð varnargarðs við Urðarbotn lauk í fyrra og stendur þá einungis eftir varnargarður við Nes- og Bakkagil. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert