Hallgrímur gefur út bók í Rússlandi

Hallgrímur Helgason
Hallgrímur Helgason

Rithöfundurinn Hallgrímur Helgason hefur gefið út bók sína, 60 kíló af sólskini, í „landi Pútíns“ eins og hann orðar það í færslu á Facebook. Hann segist hafa velt vöngum yfir því hvort rétt  væri að gefa út bók í Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu en látið slag standa eftir samtöl við kollega sína. 

Til rússnesks almennings

„Þetta var eitthvað til að velta vöngum yfir því maður sagði ekki já umhugsunarlaust. En eftir að hafa fylgst með umræðum og rætt við kollega á bókmenntahátíð þá auðveldaði það ákvörðunina. Meðal annars ræddi ég við Colson Whitehead og Åsne Seierstad og þau voru bæði á því að maður ætti að gefa út þar sem maður væri að koma bókmenntum til rússnesks almennings og það væru ekki allir sammála Pútín í Rússlandi,“ segir Hallgrímur í samtali við mbl.is.

Sextíu kíló af sólksini hefur verið gefin út í rússneskri …
Sextíu kíló af sólksini hefur verið gefin út í rússneskri þýðingu.

Forlög á Pútín línunni 

Bókin er söguleg skáldsaga sem gerist á Íslandi í upphafi 20. aldar og á Hallgrímur ekki von á því að efnistök bókarinnar gætu vakið athygli yfirvalda í Rússlandi. „Ég talaði einnig við Úkraínumanninn Andrey Kurkov sem hefur fengið bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness. Hann sagði að öllu máli skipti að gefa út hjá réttu forlagi. Einhver forlög eru á Pútín-línunni en svo eru önnur forlög sem eru frjáls af stefnu hans,“ segir Hallgrímur. 

Hallgrímur segir ekki öll forlög hliðholl Vladimir Pútín.
Hallgrímur segir ekki öll forlög hliðholl Vladimir Pútín. AFP/Pavel Byrkin

Kom ekki til tals að fara til Rússlands

Hann segir að útgáfan veki spurningar um það hvernig beri að umgangast þau lönd sem stunda mannréttindabrot. „En þetta er öllu alvarlegra. Þegar þjóðin er í stríði við aðra þjóð,“ segir Hallgrímur. 

Hann segir að bókin hafi komið út í Rússlandi í gegnum umboðsmann hans og hann hafi ekki orðið var við neinar hömlur af hendi Rússa. „Ég fór ekki út og kannski hefði verið eitthvað vesen ef ég hefði gert það. Ég er hvort sem er ekkert viss um að maður hefði gert farið ef það hefði verið í boði en það kom aldrei til tals,“ segir Hallgrímur. 

Bókin kom út fyrir um mánuði og hefur fengið góða dóma í Rússlandi að sögn Hallgríms. Hann á ekki von á því að útgáfan gefi vel í aðra hönd. „Það er ekki mikill peningur í þessu,“ segir Hallgrímur.

Skáldsagan hefur þegar komið út í Litháen, Danmörku, Þýskalandi og er væntanleg í Frakklandi á næsta ári.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert