„Þvælt inn í umræðu um framúrkeyrslu“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks tókust …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks tókust á um fjármögnun málaflokks fatlaðra í borgarstjórn í Dag.

„Það er rangt, ósmekklegt og ómaklegt að nota sér þennan málaflokk (vanfjármögnun á málefnum fatlaðra) sem skýringu á því að hafa farið langt framúr áætlunum," sagði Hildur Björnsdóttir í ræðu sinni í borgarstjórn í dag þegar farið var yfir ársreikning borgarinnar. 

Vísaði hún þar til þess að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, hefur sagt að fjárhæð upp á 9,3 milljarða króna, sem borgin vill krefja frá ríkinu til að fjármagna málaflokkinn, hafi verið einna veigamesti þátturinn sem skýri 15,6 milljarða halla á rekstri A hluta borgarsjóðs. Er það sá hluti sem viðkemur daglegum rekstri borgarinnar.

Hildur hefur hins vegar bent á að af þeim 13 milljörðum króna sem framúrkeyrsla borgarinnar nam séu einungis 664 milljónir króna eða um 5% af framúrkeyrslunni sem rekja megi til málaflokksins umfram það sem áætlað var.

Tókust þau hart á um málefnið í borgarstjórn. „Það er reksturinn sem er vandamálið. Ekki lögbundin þjónusta við fatlað fólk,“ sagði Hildur í ræðu sinni.

Ekki heiðarleg framsetning 

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri sagði í andsvari að sér fyndist alvarlegt að stilla málum þannig upp að einungis vantaði um 664 milljónir króna upp á málefni fatlaðs fólks. „Mér finnst það hvorki heiðarleg né ábyrg framsetning. Ég vil því spyrja hvort oddviti Sjálfstæðisflokks taki ekki undir þá greiningu áhættu- og fjárstýringasviðs á að það sem vanti upp á málefni til fatlaðs fólks frá ríkinu sem sé 9,3 milljarðar?" segir Dagur í andsvari sínu við ræðu Hildar.

Skýri ekki 13 milljarða framúrkeyrslu 

Hildur tók þá til máls og sagði að enginn ágreiningur væri um það málaflokkurinn væri vanfjármagnaður frá ríkinu. Gagnrýnin snéri hins vegar að því að mikið væri gert úr þessari vanfjármögnun sem hafi verið fyrirséð fyrir rekstrarárið. Hún skýrði ekki þá 13 milljarða sem framúrkeyrslan nam nema að um 5% leyti. „Við erum því ósátt við það að þessu sé þvælt inn í umræðu um framúrkeyrslu hjá borginni,“ segir Hildur.

Kallar málflutning popúlisma

Dagur sagðist vera sáttur við það að Sjálfstæðismenn gætu tekið undir með kröfu um að málaflokkurinn ætti að vera að fullu fjármagnaður af ríkinu, en sagðist að öðru leyti ekki skilja málflutninginn. „Þarna vantar á tekjuhliðina og það skilur eftir 9 milljarða gat í fjármálum borgarinnar. Það er eins og hver annar ábyrgðarlaus og ekki heiðarlegur popúlismi að halda því þannig fram að gatið á málaflokki fatlaðs fólks skipti ekki máli," segir Dagur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert