Engar sýnilegar breytingar á virkni í Grímsvötnum

Flogið yfir Vatnajökul. Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar …
Flogið yfir Vatnajökul. Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls. mbl.is/RAX

Frá miðjum maí hefur dregið úr skjálftavirkni í Grímsvötnum en stærsti skjálfti þessa árs mældist 3,3 að stærð 23. apríl. 

Í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að frá síðustu áramótum hafa um það bil 10 til 30 skjálftar (stærri en 1,0) mælst í hverjum mánuði í Grímsvötnum þar sem mesta virknin var í seinnihluta apríl og byrjun maí. 

Árleg vorferð Jöklarannsóknafélags Íslands á Vatnajökul, var farin í fyrstu viku júní þar sem unnið var að verkefnum Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskólans, auk annarra rannsóknaverkefna.

Í tilkynningunni segir að gasmælingar hafa verið gerðar árlega í vorferðinni nærri gosstöðvunum 2011 í Grímsvötnum, en það var ekki mögulegt í ár vegna þess að virknin hefur minnkað og jökullinn er búinn að skríða fram og yfir svæðið þar sem mælingar hafa farið fram. Þá var aðgengi erfitt en talsvert var af sprungum í kringum svæðið. 

Veðurstofan rekur gasmæli uppi á Saltaranum, nærri Grímsfjalli, sem sendir gögn í rauntíma og hefur hann ekki sýnt breytingar undanfarið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert