„Vona bara að enginn verði sjóveikur“

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands, funduðu …
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands, funduðu í ráðhúsinu í Vestmannaeyjum í kvöld. AFP/Halldór Kolbeins

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að öruggara hafi verið, sem og umhverfisvænna, að sigla með forsætisráðherra Norðurlandanna og Kanada til Vestmannaeyja. Forsætisráðherrarnir komu til Eyja með Herjólfi nú undir kvöld. 

Árlegur sumarfundur norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í Vestmannaeyjum í dag og á morgun og er Kanada sérstakur gestur fundarins. Katrín átti tvíhliða fund með Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, nú í kvöld í ráðhúsinu í Vestmannaeyjum. 

„Það var ákvörðun mín að bjóða kanadíska forsætisráðherranum að koma með. Þá sérstaklega til að ræða málefni sem við eigum sameiginleg með Kanada, eins og málefni Norðurslóða og heimskautið. Auðvitað verður ástand öryggis- og varnarmála rætt, eðlilega. Svo deilum við öðrum þáttum með Kanada, eins og ákveðnum samfélagslegum gildum. Við munum ræða fjölþjóðlegt samstarf, stöðu lýðræðis og mannréttinda. Og svo það sem við köllum viðnámsþrótt lýðræðissamfélaga á tímum þar áskoranirnar eru mjög stórar. Loftslagið, líffræðilega fjölbreytni, hafið,“ segir Katrín í samtali viðmbl.is um borð í Herjólfi á leið til Vestmannaeyja. 

Talið var öruggara að sigla með forsætisráðherrana til Eyja.
Talið var öruggara að sigla með forsætisráðherrana til Eyja. AFP/Halldór Kolbeins

50 ár frá eldgosinu

Ísland fer með formennsku í ráðinu í ár og því fer fundurinn fram hér. Vestmannaeyjar urðu fyrir valinu vegna þess að í ár eru 50 ár liðin frá eldgosinu í Heimaey. 

„Við enduruppbyggingu í Eyjum þá komu norrænar þjóðir með mikla aðstoð. Þannig þetta er dæmi um annars vegar norrænt samstarf í sinni fegurstu mynd og hins vegar líka mikilvægi þess að samfélög þrói með sér þennan viðnámsþrótt þegar við stöndum frammi fyrir náttúruhamförum eða stríði. Þess vegna fannst mér Vestmannaeyjar mjög við hæfi, þrátt fyrir sjóferð. Ég vona bara að enginn verði sjóveikur,“ sagði Katrín.

Um borð í Herjólfi voru sér veitingar fyrir ráðherrana og fengu allir ráðherrarnir að kíkja inn til skipstjórans sem sigldi til Vestmannaeyja frá Landeyjahöfn. 

Þrátt fyrir að gott hefði verið í sjóinn tókst blaðamanni þó ekki að uppfylla vonir forsætisráðherra, sem bauð kók sem meðal við sjóveikinni. 

Sérstakar veitingar voru fyrir ráðherrana um borð.
Sérstakar veitingar voru fyrir ráðherrana um borð. mbl.is/Sonja
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert