Lögreglan hefur meiri áhyggjur af öfgahyggju

Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkis- lögreglustjóra.
Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkis- lögreglustjóra. mbl.is/Hallur Már

Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningadeild ríkislögreglustjóra segir lögreglu vera á varðbergi gagnvart vaxandi hættu á öfgahyggju líkri þeim sem við höfum mátt þekkja frá löndunum í kringum okkur. 

Óvarlegt sé þó að draga of víðtæka ályktanir af hátterni ungu mannanna sem handteknir voru í Hafnarfirði á dögunum eftir að þeir dreifðu áróðri sem byggði m.a. á kynþáttahyggju.

Engu að síður sé alltaf hætta á því að einhver þeirra sem tekur þátt í umræðum á netinu geti orðið róttækari og gripið til ofbeldis. Skemmst er að minnast þess að nú er fyrir dómi mál gegn ungum mönnum sem eru ákærðir í svokölluðu hryðjuverkamáli þó ósannað sé að þeir hafi ætlað sér að grípa til ofbeldis. 

Nýtt vín í gömlum belgjum 

„Þetta er nýtt vín á gömlum belgjum þar sem verið er að hampa hvíta kynstofninum. Erlendis sjá menn orðræðu í átt að aukinni kvenfyrirlitningu, andúð á hinsegin samfélagi og andúð á innflytjendum,“ segir Runólfur. 

Þegar slíkt er sett í íslenskt samhengi er ekki langt síðan starfrækt var vefsíðan Norðurvígi sem hafði undirtón kynþáttahyggju. 

Áróðri með kynþáttahyggju var dreift á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku.
Áróðri með kynþáttahyggju var dreift á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku.

„Þar var ákveðinn grunntónn sem passaði inn í þessa orðræðu. Norðurvígi var hluti af norrænum samtökum sem gefa út hlaðvarpsþætti og þar var grunntónninn sá að norræni kynstofninn þurfi að stofna nýtt samfélag,“ segir Runólfur.  

Komast sjaldnast yfir gögn 

Hann segir þó lögreglu á Íslandi sjaldnast komast yfir gögn þar sem íslenskir aðilar ræða þessi mál sín í milli. 

„Ef við berum okkur saman við alþjóðleg lögreglulið þá höfum við frekar takmarkaðar heimildir hvað þetta snertir. Þess vegna erum við að sækja okkur þekkingu í gegnum Europol og í samstarfi við Norðurlöndin og aðrar þjóðir,“ segir Runólfur. 

Ekki komið í stjórnmálin 

Eitt af því sem er ólíkt í íslenskt umhverfi í samanburði við það sem gengur og gerist erlendis er það að hér á landi er enginn stjórnmálaflokkur sem hefur tekið róttæka afstöðu gegn innflytjendum. Bæði í Svíþjóð og í Finnlandi t.a.m. hafa flokkar komist í ríkisstjórn sem eru með harða útlendingastefnu. 

„Við þurfum því að passa okkur á því að flytja ekki inn ógnina því raunveruleikinn er enn sem komið er annar á Íslandi. En það þarf einnig að taka mið af því að fræðimenn hér á landi hafa áhyggjur af stöðu ungra karlmanna sem flosna snemma upp úr námi og glíma við einangrun,“ segir Runólfur.

Meðvitaðir um möguleikann 

Bendir hann á að jafnan séu það ungir karlmenn sem glíma við einangrun sem taka upp slíka orðræðu og t.a.m. eru ungu mennirnir sem handteknir voru í Hafnarfirði um tvítugt. 

Ungir karlmenn þykja móttækilegastir fyrir róttækri orðræðu.
Ungir karlmenn þykja móttækilegastir fyrir róttækri orðræðu. CHRISTIAN CHARISIUS

„Það er erfitt að draga miklar ályktanir út frá þessum tilvikum. En í heildina litið og þegar við skoðum þetta í samhengi við það sem er að gera erlendis þá höfum við meiri áhyggjur af þessu en áður engu að síður,“ segir Runólfur.                         

Hann segir þó mikilvægt að setja þann fyrirvara á að í öfgahópum séu margs konar sundurleitar hugmyndir og langfæstir grípi til ofbeldis.  

„Það eru örfáir sem fara inn í þetta netsamfélag og verða róttækir. En ef þú ert í umhverfi sem er að hvetja til ofbeldis þá er alltaf möguleiki að einhver leiðist út á þá braut og það er mikilvægt að vera meðvitaður um það,“ segir Runólfur.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert