Tíu ára fór létt með tíu kílómetra

Hinn tíu ára gamli Hafsteinn Leó Sævarsson hljóp tíu kílómetra …
Hinn tíu ára gamli Hafsteinn Leó Sævarsson hljóp tíu kílómetra til styrktar Minningarsjóðs Ölla í Reykjavíkurmaraþoninu í dag. Ljósmynd/Kristín Björt Sævarsdóttir

Njarðvíkingurinn Hafsteinn Leó Sævarsson gerði sér lítið fyrir og hljóp tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í dag.

Hafsteinn, sem er einungis tíu ára gamall, hljóp til styrktar Minningarsjóðs Ölla, en hann segir öll börn eiga að fá tækifæri til íþróttaiðkunar.  

Skellti sér í skemmtiskokkið líka

Aðspurður segist Hafsteinn hafa æft sig með föður sínum í aðdraganda hlaupsins. „Ég fer oft út að skokka með pabba og þá förum við fimm eða sex kílómetra, en þetta er það mesta sem ég hef hlaupið,“ segir Hafsteinn. Hann leggur stund á bæði körfubolta og fótbolta og undirbjó sig vel fyrir hlaupið í morgun. 

„Ég vaknaði og fékk mér hollan morgunmat. Svo byrjaði ég að klæða mig í hlaupaföt og síðan fór ég bara og hljóp tíu kílómetra,“ segir Hafsteinn. Hann kom í mark á glæsilegum tíma, 56 mínútum og 20 sekúndum, en lét þó ekki þar við sitja. 

„Síðan hljóp ég líka þrjá kílómetra með systur minni í skemmtiskokkinu,“ bætir hann við, en hlaupagarpurinn ungi var að vonum þreyttur eftir að hafa hlaupið 13 kílómetra í heildina. 

Auk tíu kílómetranna hljóp Hafsteinn einnig með Heiðu Laufey systur …
Auk tíu kílómetranna hljóp Hafsteinn einnig með Heiðu Laufey systur sinni í skemmtiskokk Reykjavíkurmaraþonsins. Ljósmynd/Kristín Björt Sævarsdóttir

„Öll börn eiga að fá að æfa íþróttir“

Hafsteinn hljóp til styrktar Minningarsjóðs Ölla, en sjóðurinn styrkir börn til íþróttaiðkunar sem eiga ekki kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna. Sjóðurinn var stofnaður í minningu körfuboltamannsins Örlygs Arons Sturlusonar sem lést langt fyrir aldur fram árið 2000. 

„Mér finnst öll börn eiga að fá að æfa íþróttir,“ segir Hafsteinn, en hann spilar körfubolta með liði Njarðvíkur rétt eins og Örlygur gerði og stendur málstaðurinn því honum nærri. 

Fékk að teygja með átrúnaðargoðinu

Í ár safna 17 hlauparar fyrir Minningarsjóð Ölla, en á meðal þeirra þeim reimuðu á sig hlaupaskóna í dag er körfuboltagoðsögnin Logi Gunnarsson. Hafsteinn heldur mikið upp á Loga og fylgdi honum fast á eftir í hlaupinu. 

Hafsteinn Leó lítur mikið upp til Loga Gunnarssonar, körfuknattleiksmann, en …
Hafsteinn Leó lítur mikið upp til Loga Gunnarssonar, körfuknattleiksmann, en þeir félagar teygðu saman eftir hlaupið í dag. Ljósmynd/Kristín Björt Sævarsdóttir

„Hann var aðeins á undan mér, það munaði svona tveimur mínútum,“ segir Hafsteinn glaður í bragði, en að hlaupinu loknu hitti hann Loga og teygðu þér félagar saman eftir átökin, Hafsteini til mikillar ánægju. 

Hefur safnað 124.000 krónum

Þegar fréttin er skrifuð hafa safnað samtals 1.123.000 krónur til styrktar Minningarsjóðs Ölla. Sjálfur hefur Hafsteinn safnað 124.000 krónum fyrir málstaðinn sem er rúmlega fjórfalt meira en markmiðið sem hann setti sér, sem voru 30.000 krónur. 

Enn er hægt er að heita á hlauparann unga og styrkja Minningarsjóð Ölla á vef Reykjavíkurmaraþonsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert