Kortleggja þarf sprungurnar: Gætu verið dýpri en 20 metrar

Horft yfir Grindavík og stóru sprunguna í gegnum bæinn í …
Horft yfir Grindavík og stóru sprunguna í gegnum bæinn í desember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir þörf á skipulagðri kortlagningu sprungna í Grindavíkurbæ. Mikilvægt sé að kanna dýpt þeirra, stærð og ekki síst hegðun.

Hann segir sum svæði hættulegri en önnur. Sprungur geti verið dýpri en 20 metrar og eru sumar illsjáanlegar þar sem grasbreiða gæti legið yfir.

„Það er ekki búið að mæla hana af neinni nákvæmni,“ segir Þorvaldur, spurður hvort búið sé að mæla dýptina á sprungunum sem liggja í gegnum Grindavíkurbæ.

Sprungur liggja í gegnum Grindavík. Gætu sumar verið dýpri en …
Sprungur liggja í gegnum Grindavík. Gætu sumar verið dýpri en 20 metrar. Samsett mynd/mbl.is/Arnþór/Eggert

Töluvert verk

„Að mínu viti væri mjög skynsamlegt áður en við fáum mikinn fjölda inn í Grindavík að kortleggja þetta mikið betur, þessar sprungur – að vita hvar þær eru og hvernig þær hreyfa sig. Þegar það er búið að afmarka það þá veistu hvaða svæði eru hættulegri en önnur og hvaða svæði eru örugg,“ segir Þorvaldur.

„Það þarf bara skipulagða kortlagningu á því og það er bara töluvert verk.“

„Við skuldum Grindvíkingum það“

Að sögn Þorvaldar geta sprungur á svæðinu verið dýpri en 20 metrar. Hann segir nauðsynlegt að kortleggja svæðið með tilliti til sprungnanna.

„Sumar af þessum sprungum eru kannski gapandi undir en svo er þunnt gróðurlag ofan á.“

Hann segir bæði tæknina og tæki til staðar til kortlagningar.

„Það þarf sameiginlegt átak, ekki vera að hugsa þetta sem einhverja peningamaskínu, heldur þurfum við að gera þetta fyrir samfélagið. Það þarf samfélagslegt átak til þess að gera þetta á skynsaman hátt. Við skuldum Grindvíkingum það.“

Til að ráðast í skynsamar aðgerðir þurfi að búa til raunverulegan vinnuhóp vísindamanna.

„Og nýta okkur alla þá þekkingu sem til er í landinu á hinu ýmsu sviðum, sama hvort það séu jarðvísindi, verkfræði eða annað – og láta þennan hóp bara vinna óháð stofnunum. Hann þarf að vera óháður Veðurstofunni, bara hópur sem vinnur fyrir almannaheill.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert