Gerendur oftast undir áhrifum vímuefna

Tilvikum þar sem farþegar Icelandair hafa uppi óæskilega háttsemi hefur …
Tilvikum þar sem farþegar Icelandair hafa uppi óæskilega háttsemi hefur fjölgað að sögn yfirmanns öryggismála þar en sömu sögu er að segja í Noregi eins og mbl.is fjallaði um fyrr í vikunni. Vinnuhópar á vegum flugfélaga og alþjóðastofnana rýna sífellt í öryggismál og leita orsaka og leiða til úrbóta. Ljósmynd/Airbus

„Óæskileg hegðun farþega hefur aukist hjá Icelandair og öðrum íslenskum flugfélögum,“ segir Björn Guðmundsson, yfirmaður öryggismála hjá Icelandair, sem greinir mbl.is frá stöðu mála hjá félaginu hvað þetta varðar en á þriðjudaginn var fjallað um mikla fjölgun slíkra tilvika hjá norskum flugfélögum.

Má nánast tala um tvöföldun í fjölda skráðra tilvika, þar sem svokallaðir flugdólgar koma við sögu, en þeim fjölgaði úr 293 árið 2022 í 560 í fyrra  og hjá einu norsku félaganna, Widerøe, nam fjölgunin 53 prósentum árabilið 2019 og þar til í fyrra.

Telur Björn upp helstu tilvik vandræðagangs á farþegum Icelandair – þeir fari ekki eftir fyrirmælum áhafnar, reyki, hafi uppi hótanir í garð áhafnar eða annarra farþega, beiti téða aðila ofbeldi eða áreiti kynferðislega.

„Þetta eru meginflokkar atvika sem falla undir regnhlífarskilgreininguna á ólátum farþega,“ segir Björn og blaðamaður spyr sérstaklega út í reykingar sem í hreinskilni koma honum meira á óvart en önnur sú háttsemi sem öryggisstjórinn nefnir.

Sums staðar enn reykt í flugi

Björn Guðmundsson er yfirmaður öryggismála hjá Icelandair. Hann veitti mbl.is …
Björn Guðmundsson er yfirmaður öryggismála hjá Icelandair. Hann veitti mbl.is innsýn í áskoranir flugfélagsins hvað vandræðafarþega snertir og kveður félagið sífellt vinna í því að bæta öryggið um borð. Ljósmynd/Aðsend

„Icelandair flytur náttúrulega ekki mestmegnis Íslendinga heldur fólk af ýmsu bergi brotið og frá alls konar menningarheimum. Sums staðar er enn þá reykt í flugvélum þótt þetta sé dáið út hjá okkur hérna á Íslandi,“ svarar Björn, „við höfum lent í atvikum allt frá því að farþegar séu að eiga við reykskynjara um borð yfir í að reykskynjarar hafi farið í gang [vegna reykinga],“ heldur hann áfram.

Svo sem við er að búast segir Björn að í yfirgnæfandi meirihluta óæskilegra tilfella séu gerendur undir áhrifum vímuefna, langoftast áfengis.

„Það er alveg í línu við það sem við sjáum í Evrópu og öllum öðrum heimsálfum,“ segir hann.

En skyldi heimsfaraldur kórónuveiru ekki hafa fækkað óæskilegum tilvikum um borð í vélum Icelandair sem annarra félaga?

Björn svarar því til að tíðni slíkra tilvika í heimsfaraldrinum hafi einmitt verið óvenjuleg. „Það sneri hreinlega að því að farþegar fylgdu ekki fyrirmælum áhafnar og það hafði svolítið með grímunotkun að gera. Farþegar voru mjög þreyttir á að nota grímur um borð og þetta var bara mjög erfitt landslag fyrir alla farþega,“ rifjar Björn upp.

Ekki jafn bratt og í Noregi

Margir hafi verið pirraðir enda töluvert verkefni bara að fara í gegnum flugvöll miðað við þær reglur sem heimsbyggðin mátti beygja sig undir þau eftirminnilegu ár sem skórinn kreppti hve kirfilegast í skugga veirunnar skæðu. Og þá var flugferðin sjálf eftir.

„Svo sjáum við smá lægð 2021 og 2022 en 2023 erum við aftur á móti að horfa á það sama og nágrannalöndin, sérstaklega í Evrópu sem við berum okkur saman við, sem er fjölgun atvika sem snúa að óæskilegri hegðun um borð. Þetta er kannski ekki jafn bratt og hjá Norðmönnunum en við sjáum verulega fjölgun þessara atvika,“ segir Björn af tímabilinu.

Flugmálastofnun Bandaríkjanna, FAA, og alríkislögreglan FBI hafa staðið fyrir gallhörðu …
Flugmálastofnun Bandaríkjanna, FAA, og alríkislögreglan FBI hafa staðið fyrir gallhörðu átaki síðan 2021 sem fækkað hefur óæskilegum atvikum í flugi innan bandarískrar lögsögu um rúm 80 prósent. AFP/Ed Jones

Hvernig er skráningu og utanumhaldi svona tilvika háttað hjá ykkur?

„Við erum með atvikaskráningarkerfi sem allir starfsmenn félagsins hafa aðgang að, þar er hægt að skrá öryggistilkynningu eða „safety report“ og þar hefur áhafnarstarfsfólk tækifæri til þess að segja frá því hvað gerðist, hvernig brugðist var við og hvort við getum lært eitthvað af atvikinu,“ útskýrir Björn og segir það einnig nauðsynlegt til að halda utan um tölfræði um hvort viss hegðun komi upp á ákveðnum flugleggjum, í ákveðnum tegundum flugs eða hjá ákveðnum hópum farþega.

FAA og FBI með gallhart átak

„Við getum þá betur flokkað í sundur, brugðist við og reynt að koma í veg fyrir að ákveðnir farþegar komi um borð hjá okkur eða ákveðin hegðun eigi sér stað,“ segir Björn og er spurður út í afleiðingarnar fyrir þá sem gerast sekir um dólgslæti um borð í vélum félagsins.

Þær segir Björn æði mismunandi eftir tilfellum.

„Við þjálfum allar áhafnir okkar til að taka á svona málum og frábrugðið Bandaríkjamönnum, sem sekta hreinlega í svona málum, tilkynnum við öll atvik til lögreglu sem vinnur þá málið áfram, lögregla hefur öll tól og tæki til þess og þegar viðkomandi flugvél lendir bíða lögregluyfirvöld þess lands eftir okkur og taka á móti farþeganum ef atvikið telst það alvarlegt en í sumum tilvikum eru þetta bara einstaklingar sem vilja ekki draga gluggahlífina fyrir eða eru með rafrettur,“ segir hann.

Starfsmaður Brussels Airlines á Dulles-flugvellinum í Virginíu í Bandaríkjunum snemma …
Starfsmaður Brussels Airlines á Dulles-flugvellinum í Virginíu í Bandaríkjunum snemma í heimsfaraldrinum, 12. mars 2020. Vandræðatilvikum sem tengjast hegðun flugfarþega hefur fjölgað hjá velflestum evrópskum flugfélögum hin síðustu ár. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Kynferðisleg áreitni fari eðli málsins samkvæmt í ólíkan farveg. „Þá er talað við fólk strax og það er tekið úr aðstæðunum og málið svo tilkynnt til lögreglu líka,“ útskýrir Björn og segir aðspurður að mismunandi sé hvort Icelandair kæri þau mál til lögreglu sem upp koma í flugi.

„Það fer til dæmis oft eftir því í hvaða lögsögu við erum. Til dæmis í Bandaríkjunum, ef atvik gerist þar í landi, eða bara í bandarískri fluglögsögu, þá eru bandaríska flugmálaeftirlitið, FAA, og alríkislögreglan FBI með átak í gangi sem staðið hefur alveg frá 2021 og atvikum tengdum óæskilegri hegðun í flugi í Bandaríkjunum hefur fækkað um rúmlega áttatíu prósent. Þessar stofnanir tóku sig saman og nú er tekið mjög hart á þeim farþegum sem eru með læti í lögsögu FAA,“ segir Björn og talar hlutfallið, sem hann nefnir, sínu máli, áttatíu prósenta fækkun tilvika.

Ákveðið ferli þurfi vél að lenda annars staðar

Nefnir hann þessu til stuðnings að bandarísk flugmálayfirvöld hafi sektað flugfarþega til samans um 8,4 milljónir dala árið 2022, jafnvirði hátt í 1,2 milljarða íslenskra króna. „Í Evrópu eru viðbrögðin öðruvísi en þetta fer engu að síður allt eftir alvarleika málsins,“ útskýrir Björn.

„Þurfi flugvél að breyta um lendingarstað vegna alvarleika atviks um borð tekur lögregla viðkomandi lands við farþeganum og þá fer ákveðið ferli af stað,“ heldur hann áfram.

Í framhaldinu skiptist mál í flokka eftir því hvort líkamlegu ofbeldi hafi verið beitt og þá hvort það hafi beinst að áhafnarstarfsmanni eða öðrum farþega. Í fyrrnefnda tilvilkinu geti félagið leitað réttar síns gegn gerandanum og lagt fram kæru.

Hvað sem gerist um borð þýðir ekkert annað en að …
Hvað sem gerist um borð þýðir ekkert annað en að taka flugið á ný og hafa súrefnisgrímuna á kímnigáfunni. Peter Holm hóf störf sem flugmaður hjá Icelandair árið 2016. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er mismunandi milli heimsálfa en eitt sem er sameiginlegt í þessu er að fluggeirinn í heild upplifir fjölgun þessara atvika og það hefur verið algengt umræðuefni á alþjóðavettvangi, svo sem hjá IATA, sem eru alþjóðasamtök flugfélaga. Þar rýna vinnuhópar í þessi atvik og reyna að finna út hvernig við getum dregið úr þessu og hvað það er sem valdi þessu því það er ekki skýrt hvað það er í heiminum sem veldur þessari fjölgun óæskilegra tilvika. Flugfélög eiga í miklu samstarfi sín á milli til að bregðast við þessu,“ segir Björn.

Hver sem er getur verið undir áhrifum

Flugfélög skoði að sjálfsögðu og greini hvers konar farþegar séu lítt við alþýðuskap í flugferðum og séu áhöfn og samferðafólki öðru til ama og leiðinda. „Við sjáum enga sérstaka tengingu við þjóðerni fólks, áfangastaði og slíkt. Mörg þessara atvika snúa að því að einstaklingar eru undir áhrifum áfengis og það getur verið hver sem er,“ segir öryggisstjórinn enda alkunna að Bakkus gamli fer ekki í manngreinarálit, allir eru jafnir fyrir flöskunni.

Segir hann frá því að EASA, Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins, hafi árið 2019 hleypt átakinu „Not on my flight“ af stokkunum, „Ekki í mínu flugi“, og megi sjá myndskeið til skýringar á heimasíðu stofnunarinnar en það myndskeið geta lesendur séð hér.

„Þar er rekin „no tolerance“-stefna gagnvart svona hegðun um borð,“ segir Björn og á við að engin óæskileg atvik beri að líða, sú sé stefna EASA. „Flugfélög í Evrópu setja skýrar línur um þetta og taka saman hvað sé eðlileg hegðun farþega og hvað ekki,“ segir hann enn fremur.

Búnaður um borð fyrir öfgatilvik

En hvaða bjargræði eru áhöfninni tæk ef til átaka kemur um borð? Nú eru flugferðir alltaf því sérstaka marki brenndar að fólk kemst ekki í burtu, það situr fast um borð þar til lent er. Hvaða verklagsreglur gilda í alvarlegustu tilvikum?

„Við þjálfum áhafnirnar alveg sérstaklega fyrir slík tilvik og höfum verið að skerpa á verklaginu hjá fyrirtækinu, bæði í að neita farþegum um flutning – þá er einstaklingur jafnvel metinn of ölvaður til að fara um borð annaðhvort í afgreiðslunni þegar verið er að tékka sig inn eða á síðari stigum, jafnvel bara þegar einstaklingur er að ganga um borð í flugvélina, þá getum við séð ástandið á fólki, við höfum þessa varnagla,“ svarar Björn.

Farþegar geta komið pirraðir um borð eftir leiðindi á flugvöllum. …
Farþegar geta komið pirraðir um borð eftir leiðindi á flugvöllum. Hér er ein gömul frá því fannfergi setti allt úr skorðum á flugvellinum í Frankfurt í Þýskalandi í mars 2013, sjötta stærsta flugvelli Evrópu. AFP/Daniel Roland

Um borð í vélunum hafi áhafnir svo búnað til að draga úr hættu og bregðast við henni. „Þegar um ógnandi hegðun er að ræða höfum við lagt ríka áherslu á samtalstækni og áhafnir þá þjálfaðar í að draga úr spennu. Oft er þetta bara einhver sem er pirraður eða ölvaður og þá þarf bara að tala einstaklinginn til en annars erum við að sjálfsögðu með tæki og tól um borð til að bregðast við aðstæðum,“ segir hann.

Flest flugfélög í Evrópu séu með útbúnað sem á ensku kallist „restraining kit“ og sé til þess gerður að hindra hreyfingar þess sem búnaðinum sé beitt á og ferð hans um farþegarýmið. „Þetta hefur nú ekki verið mikið notað hjá okkur en í flugheiminum hefur auðvitað fjöldi atvika komið upp þar sem beisla þarf viðkomandi niður,“ segir Björn.

Enginn frá vinnu eftir ofbeldi um borð

Inntur eftir áverkum sem áhafnarstarfsfólk Icelandair hafi hlotið þegar í brýnu hafi slegið um borð kveður Björn engin skráð tilvik um slíkt liggja fyrir, að minnsta kosti ekki hvað alvarlega áverka snerti þótt eitthvað hafi verið um marbletti, svo sem þegar ölvað fólk hafi átt í hlut og einhver hrasað eða dottið utan í starfsfólk um borð. „En við erum ekki með nein tilfelli þar sem einstaklingar hafa verið frá vinnu eftir ofbeldi um borð,“ segir Björn.

Eins og fram hefur komið upplifi starfsfólk Icelandair – eins og annarra flugfélaga – fjölgun vandræðatilvika í flugi. „Vinnan sem þetta snýst um er að átta sig á hvernig við getum dregið úr þessu, getum við til dæmis gert upplifun farþega á flugvellinum þægilegri, erum við með einhverjar aðferðir til að grípa einstaklinga fyrr?“ veltir hann fyrir sér.

„Við höfum verið heppin með það að áhafnir okkar hafa getað talað fólk niður og róað það niður. Fluggeirinn snýst um að bæta öryggið á hverjum degi og við gefumst aldrei upp í baráttunni við að gera flugið öruggara, það er bara okkar markmið og við munum halda því áfram næstu ár,“ segir Björn Guðmundsson, yfirmaður öryggismála flugfélagsins Icelandair, að lokum.

Boeing 787 Dreamliner frá Qatar Airlines í flugtaki sumarið 2012.
Boeing 787 Dreamliner frá Qatar Airlines í flugtaki sumarið 2012. AFP/Adrian Dennis
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert