Kópavogsbær vill breytingar á kosningalögum

Það þarf fleiri atkvæði á bak við hvern þingmann í …
Það þarf fleiri atkvæði á bak við hvern þingmann í Suðvesturkjördæmi en í öðrum kjördæmum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti einróma á fundi í gær að skora stjórnvöld að gera breytingar á kosningalögum Íslands til að jafna atkvæðavægi um land allt.

Þetta kemur fram í fundargerð frá bæjarstjórnarfundi í gær.

Indriði Ingi Stefánsson, varabæjarfulltrúi Pírata, lagði fram áskorunina frá Jafnréttis- og mannréttindaráði Kópavogs.

„Kjördæmakerfið á Íslandi býður upp á allt að tvöfaldan mun á vægi atkvæða eftir búsetu kjósenda og líður Suðvesturkjördæmi hvað mest fyrir misskiptingu atkvæða. Bæjarstjórn Kópavogs skorar á Alþingi/innviðaráðherra/stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að gera viðeigandi breytingar á kosningalögum nr. 112/2021 í þeim tilgangi að jafna atkvæðavægi á milli kjördæma,“ segir í samþykktri áskorun bæjarstjórnar.

Atkvæði hafa mismunandi vægi eftir kjördæmum

Í erindi Indriða bar hann saman atkvæðavægi í Suðvesturkjördæmi saman við atkvæðavægi í öðrum kjördæmum miðað við óbreytta kjörskrá frá árinu 2021.

Samkvæmt því erindi eru 5.266 atkvæði á bak við hvern þingmann í Suðvesturkjördæmi en í Norðvesturkjördæmi eru 3.078 atkvæði á bak við hvern þingmann. Þannig er atkvæðavægið í Suðvesturkjördæmi 130% af landsmeðaltali en í Norðvesturkjördæmi 76% af landsmeðaltali.

Jafnast er atkvæðavægið Reykjavíkurkjördæmi norður þar sem atkvæðavægið er 102% af landsmeðaltali og í Reykjavíkurkjördæmi suður er það 103% af landsmeðaltali. Þar á eftir kemur Suðurkjördæmi þar sem atkvæðavægið er 95% af landsmeðaltali.

Í Norðausturkjördæmi þarf fæst atkvæði fyrir hvern þingmann eða 2.989 atkvæði. Það er 73% af landsmeðaltali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert