Kostnaður listamannalauna hækki um 40%

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs vegna listamannalauna aukist um 41% á næstu fjórum árum samkvæmt nýju frumvarpi menningarmálaráherra, sem hyggst fjölga launasjóðum og úthlutunarmánuðum.

Drög að breytingum á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009, hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef menningar og viðskiptaráðuneytisins.

Fjöldi starfslauna hefur haldist óbreyttur í 15 ár eða frá því að gildandi lög tóku gildi árið 2009, segir í tilkynningunni.

Starfslaunamánuðum yrði fjölgað úr 1.600 í 2.850 á fjórum árum og myndi því tæplega tvöfaldast. Lagt er til að þremur nýjum sjóðum verði bætt við kerfið; Launasjóði kvikmyndahöfunda, Vexti, sem yrðir sjóður 35 ára og yngri, og Vegsemd, sem yrði sjóður listamanna 67 ára og eldri.

Kostnaður næmi 1,6 milljörðum

Kostnaður við listamannalaunin eru í dag 978 milljónir. Breytingarnar verða innleiddar í skrefum á árunum 2025-2028 og er ráðgert að viðbótarkostnaður verði í heildina 700 milljónir þegar fullri hækkun er náð. Þá er heildarkostnaðurinn 1.678 milljónir.

Breytingarnar verða innleiddar í skrefum á árunum 2025-2028 og er ráðgert að kostnaður aukist um eftirfarandi:

  • 2025: 124 millj. kr.
  • 2026: 280 millj. kr.
  • 2027: 490 millj. kr.
  • 2028: 700 millj. kr.

Í ár hlaut 241 listamaður lista­manna­laun en 1.600 mánaðarlaun voru til út­hlut­un­ar úr sex launa­sjóðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert