Aldrei rétti tíminn til að hækka listamannalaun

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Arnþór

Lilja Alfreðsdóttir, menningar og viðskiptaráðherra, gefur lítið fyrir gagnrýni á þann tímapunkt þar sem tilkynnt var um hækkun listamannalauna.

Um er að ræða stigvaxandi hækkun framlaga til listamanna úr 124 milljónum árið 2025 í 700 milljónir króna árið 2028. Kostnaður listamannakerfisins er 860 milljónir króna sem stendur.

Tilkynningin kemur á sama tíma og verðbólga plagar hagkerfið auk þess sem reglulega hefur verið tilkynnt um vegleg útgjöld ríkisins. Meðal annars til uppkaupa á fasteignum í Grindavík og til liðkunar kjarasamninga á dögunum. Þá var tilkynnt á dögunum um að skólagjöld yrðu felld niður í listaháskólanum og á Bifröst gegn óskertum framlögum frá ríkinu. Í dag var svo tilkynnt í menningar og viðskiptaráðuneytinu að 100 milljónir yrðu settar í markaðssetningu til að koma réttum upplýsingum á framfæri um eldgos á Íslandi. 

Ekki hægt í samkomutakmörkunum stjórnvalda og ekki hægt í verðbólgu 

Lilja segir að unnið hafi verið að hækkun listamannalauna í sex ár og að aldrei hafi verið talinn rétti tíminn til að kynna hana.

„Það hefur ekki orðið breyting á listamannalaunum frá árinu 2009. Ég er búinn að vera að vinna að þessu í sex ár og aldrei hefur verið rétti tíminn. Ekki var hægt að tilkynna þetta á Covid-tímum. Svo gat rétti tíminn ekki verið þegar við vorum í 10% verðbólgu. Ég er að kynna þetta núna því ég vænti þess að verðbólgan sé að ganga hratt niður og að hagkerfið okkar ráði við þetta,“ segir Lilja.

Hækkun listamannalauna 3,5%

Hækkun launanna sjálfra verður upp á 3,5%. Hins vegar verður mun fleirum gert fært að sækja sér listamannalaun en í núverandi kerfi. Þaðan kemur útgjaldahækkunin. Þannig verður starfslaunamánuðum fjölgað úr 1.600 í 2.850.

Samhliða er þremur nýjum sjóðum bætt við kerfið: Launasjóði kvikmyndahöfunda, Vexti sjóði 35 ára og yngri og Vegsemd sjóði listamanna 67 ára og eldri. 

Hefur trú á að verðbólguvæntingar lækki hratt 

En er ekki mótsagnakennt að tala um að verðbólguvæntingar séu of háar en kynna um leið stóraukin útgjöld til tiltekinna málaflokka?

„Hagkerfið er að kólna hratt þó verðbólguvæntingarnar séu svona háar. Ég hef trú á því að þær muni lækka mjög hratt í takt við nýja kjarasamninga og aukið aðhald. Að mati margra er aldrei rétti tímapunkturinn til að fjölga starfslaunum listamanna. Ég er því ósammála og einhvern tímann þarf að gera þetta.“

Líka aðhald á móti 

Nú er eitt að því sem rætt er meðal fólks að ríkisstjórnin geti varla tilkynnt um nokkuð án þess að það kosti nokkur hundruð milljónir hið minnsta. Hvað finnst þér um slíkan málflutning?

„Ég held að það sé mikilvægt að ná utan um þessa umræðu. Sem dæmi munum við fara í mótvægisaðgerðir við þessa hækkun listamannalauna. Það verður farið í miklar sameiningar á stofnunum í menningargeiranum. Við sjáum fram á talsverða hagræðingu þar. En svo vil ég líka nefna að samkvæmt lögum um opinber fjármál er á hverju einasta ári gerð krafa um 2% aðhald á ákveðna málaflokka. Það hefur t.a.m. verið aðhaldskrafa á menningunni undanfarin ár,“ segir Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert