Ákvað snemma að verða eigandi

Forstjóri Deloitte, Þorsteinn Pétur Guðjónsson, var snemma staðráðinn í því …
Forstjóri Deloitte, Þorsteinn Pétur Guðjónsson, var snemma staðráðinn í því að vinna sig upp hjá fyrirtækinu. mbl.is/Ásdís

Í nýjum og glæsilegum höfuðstöðvum Deloitte, fyrirtækis sem fagnar þrjátíu ára afmæli um þessar mundir, hitti blaðamaður forstjórann Þorstein Pétur Guðjónsson. Þorsteinn hóf störf hjá Deloitte aldamótaárið 2000 og vann þá þar meðfram námi. Með metnaði og elju hefur hann unnið sig upp og nú, tuttugu og fjórum árum síðar, er hann þar enn, einn eigenda og forstjóri. Fyrirtækið hefur vaxið gífurlega síðan Þorsteinn bankaði fyrst upp á hjá fyrirtækinu, kornungur háskólastrákur.

Rak verslun á þrettánda ári

„Ég byrjaði sem handlangari hjá pabba, Guðjóni Ágústssyni, þegar ég var tólf ára, en hann var múrari. Svo vann ég líka í verslun og á þrettánda ári rak ég aleinn verslunina í þrjár vikur að sumarlagi. Ég var einn í búðinni milli níu og hálfsjö með óútfylltar ávísanir, afgreiddi og pantaði inn vörur,“ segir Þorsteinn, en búðin hét Kjörbúðin Stórholti 16 og var eins konar „kaupmaður á horninu“-verslun. Foreldrar hans, móðurbróðir og kona hans áttu búðina.

Tólf ára drengurinn þurfti að takast á við fleira en afgreiðslu og innkaup.

„Ég stoppaði eina konu sem var að stela, konu sem kom þarna á hverjum degi. Það var nýbúið að setja upp spegla og ég sá hana stela. Þegar hún kom að kassanum spurði ég hana hvort hún væri ekki með eitthvað meira í töskunni,“ segir hann og hlær.

Ákvað að verða eigandi

Eftir menntaskóla setti Þorsteinn stefnuna á markaðsfræði í Háskóla Íslands en fljótlega eftir að hann hóf nám skipti hann yfir í endurskoðun og reikningsskil.

„Á fjórða árinu byrjaði ég hjá Deloitte, en hafði reyndar sótt um hjá samkeppnisaðilanum PwC en fékk engin svör þaðan. Ég var boðaður strax í viðtal hjá Deloitte og í bílnum á leiðinni úr viðtalinu var hringt í mig og ég ráðinn,“ segir Þorsteinn, og þar með voru örlög hans, að minnsta kosti hvað varðar starfsframa, ráðin.

Það var svo í starfi sínu hjá Deloitte að Þorsteinn fann að hann væri á réttri hillu.

„Eftir fyrsta árið hérna hjá Deloitte man ég að ég hugsaði; ég ætla bara að vera hérna og verða eigandi. Mér líkaði starfið svo vel og hér var margt ungt fólk, skemmtilegur starfsandi og margir flottir viðskiptavinir. Mér fannst það heillandi.“

Endurskoðun er gamli bakrunnurinn

Margir tengja nafnið Deloitte við endurskoðun, sem það vissulega sinnir, en fyrirtækið er með puttana í ýmsu öðru líka.

„Endurskoðun er gamli góði bakgrunnurinn. Við urðum þrjátíu ára nú fyrir skemmstu en Deloitte er byggt á annarri endurskoðunarskrifstofu sem var stofnuð 1952. Þegar gamla fyrirtækið breyttist í Deloitte var aðallega verið að fást við bókhald, endurskoðun og reikningsskil. En síðan um aldamótin fórum við meira út í skatta-, lögfræðiþjónustu og fjármálaráðgjöf og á síðustu tíu árum höfum við færst meira yfir í ráðgjöf í upplýsingatækni,“ segir Þorsteinn og segir þau í auknum mæli vinna við stafvæðingu lausna en einnig aðstoða fyrirtæki að átta sig á stöðu upplýsingatæknimála sinna með það að leiðarljósi að fyrirtæki geti fært sig yfir í nútíma tækniumhverfi á sem skilvirkastan máta.

„Við erum að vinna í ýmsum verkefnum því tengdum, ásamt innleiðingu á fjárhagskerfum. Vinnan snýst nú að stærri hluta um ráðgjöf heldur en áður,“ segir hann, en 360 manns vinna hjá Deloitte á níu stöðum á landinu. Langflestir vinna í höfuðstöðvunum, um 280.

Með metnað og háleit markmið

Deloitte er í hópi Framúrskarandi fyrirtækja árið 2023, áttunda árið í röð. Þá hefur Deloitte einnig verið á lista Viðskiptablaðsins og Keldunnar yfir fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri. Þorsteinn tók við sem forstjóri haustið 2019, en hafði frá 2014 verið sviðsstjóri endurskoðunarsviðs.

„Um leið og ég tók við settum við af stað fjögurra ára stefnu; heljarinnar stefnu um hvernig við vildum að fyrirtækið myndi líta út að fjórum árum liðnum. Ég var með mikinn metnað og háleit markmið og ætlaði að gjörbreyta öllu, en korteri seinna var komið covid og fólk fór að halda að sér höndum og fyrirtæki að bíða með fjárfestingar. Þetta voru mjög skrítnir tímar. En svo fór allt aftur af stað.“

Þorsteinn á sex börn. Rúnar Þór er í fanginu á …
Þorsteinn á sex börn. Rúnar Þór er í fanginu á pabba sínum Þorsteini Pétri og frá vinstri má sjá Selmu Dóru, Pétur Inga, Rakel Rán og fremst á mynd er Thelma Ýr. Birta Mogensen er með Regin Frey í fanginu. ​

Ítarlegt viðtal er við Þorstein Pétur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert