Höfðar þrjú mál gegn Íslandi

EFTA-dómstóllinn mun dæma í málunum.
EFTA-dómstóllinn mun dæma í málunum. Ljósmynd/Colourbox

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur ákveðið að vísa þremur málum til EFTA-dómstólsins þar sem Ísland hafi ekki gert nauðsynlegar ráðstafanir til að innleiða þrjár EES-gerðir á sviði félagaréttar.

EES-gerðirnar sem um ræðir eru tilskipun um hvatningu til þátttöku hluthafa til lengri tíma, um kröfur um auðkenningu hluthafa, sendingu upplýsinga og að auðvelda hluthöfum að nýta sér réttindi sín og reglugerð um tækniforskriftir og verklagsreglur fyrir samtengingarkerfi aðal-, fyrirtækja- og félagaskráa, að því er segir í tilkynningu.

„Þar sem gerðirnar hafa ekki verið innleiddar í landsrétt innan þeirra tímamarka sem við eiga um gerðirnar, annars vegar 1. október 2021 og hins vegar 30. apríl 2022, telur ESA að Ísland sé brotlegt við reglur EES-samningsins. ESA hefur því ákveðið að höfða þrjú mál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum,“ segir í tilkynningunni.

Vísun mála til EFTA-dómstólsins er lokaskrefið í formlegu samningsbrotamáli ESA gegn Íslandi og mun EFTA-dómstóllinn nú dæma í málunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert