Stjórnarflokkar þrefa enn um bæði menn og málefni

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Eyþór

Forystumenn ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna, hafa setið á fundum linnulítið alla helgina til að reyna að koma sér saman um málefnagrundvöll nýrrar ríkisstjórnar flokkanna þriggja. Þeir skipa nú starfsstjórn eftir að Katrín Jakobsdóttir beiddist lausnar í gær.

Flestir fundir hafa verið sóttir af tveimur frá hverjum flokki, en auk formanna hafa varaformenn og Svandís Svavarsdóttir átt þar aðkomu.

Fyrir liggur vilji allra flokka til þess að freista frekara samstarfs í nýrri ríkisstjórn, en það veltur að miklu leyti á málefnaáherslum það sem eftir lifir kjörtímabils. Misvel hefur gengið að efna stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar sem senn fer frá, og ljóst að ekki er mikill tími til stefnu fram að kosningum, sem fram eiga að fara ekki síðar en haustið 2025.

Upphaflega stóðu vonir til þess að málefnavinnunni gæti lokið um helgina, en í gær varð ljóst að það tækist ekki. Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að engir fundir þingflokka hafi verið boðaðir í gærkvöldi, líkt og ætla mætti hefðu forystumennirnir náð saman.

Þrefað um forgangsmálefni

Ekki er víst að nýr málefnasamningur verði gerður, nái flokkarnir saman, en hins vegar hefur verið rætt um að birt yrði yfirlýsing um forgangsverkefni hennar, þar á meðal um mál sem hafa tafist í meðförum ríkisstjórnar og þingflokka.

Þannig nefna Sjálfstæðismenn, sem Morgunblaðið ræddi við, að tryggja yrði að hælisleitendamál, orkuöflun, efnahagsmál og varnar- og öryggismál fengju nauðsynlegan framgang. Í hinum flokkunum eiga menn einnig sín óskamál, en óvíst hvernig þau fara öll saman.

Þessi áhersla á málefnin er m.a. svar við háværum gagnrýnisröddum í stjórnarliðinu, einkum í Sjálfstæðisflokki. Þar eru margir langþreyttir á samstarfinu við Vinstri græna sem þeir saka um að tefja fyrir framgangi mála sem þó er sögð samstaða um og sífellda fyrirvara.

Verkaskipting og vantraust

Ekki var þó aðeins verið að ræða málefnin, því miklu varðar hvernig ríkisstjórnin verður skipuð. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins er sagður hafa talað mjög skýrt um að ef ríkisstjórnarsamstarf stjórnarflokkanna verður endurnýjað, þá yrði það undir forystu Sjálfstæðismanna.

Önnur verkaskipting í ríkisstjórn hefur einnig verið rædd, m.a. með tilliti til yfirvofandi vantrauststillögu Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, gegn Svandísi matvælaráðherra vegna ólöglegrar embættisfærslu við boðun hvalveiðibanns liðið sumar.

Viðbúið er að hún verði að óbreyttu tekin á dagskrá þingsins á þriðjudag eða miðvikudag. Fyrir liggur að ekki geta allir þingmenn Sjálfstæðisflokks hugsað sér að verja hana vantrausti, en Vinstri grænir hafa sagt stjórnarsamstarf úr sögunni verji ekki allir stjórnarþingmenn ráðherrann.

Hvort það dugi að Svandís færi sig um set innan ríkisstjórnar er svo annað mál, Ingu Sæland finnst það a.m.k. ekki: „Ég er að hugsa um að elta hana, mér er alveg sama hvert hún fer,“ segir hún í samtali við blaðið.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert