Ummæli Páls um Aðalstein dæmd ómerk

Páll Vilhjálmsson og Aðalsteinn Kjartansson. Ummæli Páls um Aðalstein í …
Páll Vilhjálmsson og Aðalsteinn Kjartansson. Ummæli Páls um Aðalstein í átta mismunandi greinum hafa verið dæmd ómerk. Samsett mynd

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt ómerkan fjölda ummæla Páls Vilhjálmssonar um blaðamanninn Aðalstein Kjartansson í samtals átta greinum sem hann skrifaði. Þá er Páli gert að greiða Aðalsteini 1,4 milljónir í málskostnað og 450 þúsund krónur í bætur.

Jafnframt er honum gert að fjarlægja af vefsíðu sinni þau ummæli sem ómerkt eru innan 15 daga, að viðurlögðum dagsektum upp á 30 þúsund krónur á dag uns ummælin hafa verið fjarlægð. Jafnframt þarf Páll að birta hluta dómsins á vefsíðu sinni, einnig að viðurlögðum 30 þúsund króna dagsektum.

Ummælin tengjast umfjöllun Aðalsteins m.a. um svokallaða skæruliðadeild Samherja. Fram kemur í dóminum að óumdeilt sé að hluti þeirrar umfjöllunar hafi byggst á gögnum sem tilheyrðu skipstjóranum Páli Steingrímssyni sem hafi verið kenndur við skæruliðadeildina.

Hefur Páll Vilhjálmsson tjáð sig nokkuð á bloggsíðu sinni um sakamálarannsókn þar sem Aðalsteinn hefur stöðu sakbornings, en þar er til skoðunar hvort brotið hafi verið á friðhelgi einkalífs Páls skipstjóra. Í ummælum Páls Vilhjálmssonar sem dæmd voru ómerk er meðal annars vísað til þess að Aðalsteinn hafi haft beina eða óbeina aðild að meintri byrlun Páls skipstjóra.

Tvenn ummæli ekki dæmd ómerk

Tvenn ummæli sem kært var fyrir eru þó talin eiga rétt á sér og eru ekki dæmd ómerk.

Í dómi héraðsdóms er vísað til þess að ummælin sem dæmt er fyrir hafi verið látin falla í tengslum við opinbera þjóðfélagsumræðu sem varði meðal annars trúverðugleika fjölmiðla og vinnubrögð blaðamanna. Slík ummæli hafa í dómaframkvæmd notið rýmkaðs tjáningarfrelsis, en tekið er fram í dóminum að það þýði þó ekki að haga megi ummælum sínum með hverjum þeim hætti sem Páll vilji.

Varðandi ummælin „Verðlaunin fengu þeir fyrir fréttir sem aflað var með glæpum, byrlun og gagnastuldi.“ sem einnig hafði verið kært fyrir er það niðurstaða dómsins að ekki sé tilgreint hvort það hafi verið blaðamennirnir sjálfir sem sýndu af sér refsiverða háttsemi eða þriðji maður, svo sem heimildarmaður.

Segir í dóminum að þótt djúpt sé tekið í árinni með ummælunum, teljist þau rúmast innan stjórnarskrárvarins tjáningarfrelsis Páls og verða þau ekki ómerkt.

Sambærileg sjónarmið eiga við um ummælin: „Ef einhver þessara samskipta eru til á texta, t.d. í tölvupóstum, er líklegt að sú sönnun haldi fyrir dómi. Annars er um að ræða kringumstæðurök fyrir aðild blaðamanna að skipulagningu tilræðisins auk vitnisburðar.“ Segir í dóminum að þarna séu fremur óljósar vangaveltur Páls sem bundnar séu fyrirvörum. Því teljist þau til gildisdóms og séu ekki ómerkt.

Ósannaðar staðhæfingar og ærumeiðandi aðdróttanir

Varðandi mörg önnur ummæli er hins vegar vísað til þess að Páll staðhæfi að Aðalsteinn hafi framið refsiverðan verknað, ýmist sem beinn gerandi eða sem hlutdeildarmaður. Hvorki málsgögn né framburður Páls skipstjóra renni stoðum undir þessar staðhæfingar.

Hins vegar er vísað til þess að í ummælunum „Aðalsteinn er þrautþjálfaður í blekkingum.“ Felist ærumeiðandi aðdróttun sem hafi ekki verið sönnuð. Þá segir í dóminum að ummæli Páls um að það væri „þekkt staðreynd“ að Aðalsteinn væri „fluttur af RÚV á Stundin“ beri keim af því að um einhvers konar leikrit væri að ræða að hann ynni á Stundinni. Væru það ærumeiðandi aðdróttanir sem bæru með sér að starfslok hans á RÚV hefðu verið óeðlileg.

Þetta er annar dómurinn á innan við mánuði þar sem ummæli Páls eru dæmd ómerk, en Héraðsdómur Reykjavíkur ómerkti einnig ummæli hans í máli sem Þórður Snær Júlí­us­son, ann­ar rit­stjóri Heim­ild­ar­inn­ar og Arn­ar Þór Ing­ólfs­son, blaðamaður sama miðils, höfðuðu gegn honum. Hafði hann þar sakað þá um beina eða óbeina aðild að byrlun Páls skip­stjóra Stein­gríms­son­ar og stuldi á síma hans í tengsl­um við um­fjöll­un um fyrrnefnda skæru­liðadeild Sam­herja.

Þurfti Páll að greiða hvorum þeirra 300 þúsund krónur í miskabætur og hvorum 750 þúsund krónur í málskostnað. Páll hefur áfrýjað þeim dómi til Landsréttar.

Ummælin í greinunum átta sem dæmd voru ómerk í dag eru eftirfarandi:

2. apríl 2022:

  • „...og Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans.“

25. ágúst 2022:

  • „Leikritið um að Aðalsteinn ynni á Stundinni, en ekki RÚV, var hluti af samráði um að byrla og stela til að ná í fréttir.“

28. október 2022:

  • „Aðalsteinn er þrautþjálfaður í blekkingum.“
  • „Aðalsteinn var sendur á Stundina til að taka við þýfinu og koma í umferð.“
  • „Engin rannsóknarvinna fór fram, aðeins byrlun og stuldur.“

15. febrúar 2023:

  • „Fimm blaðamenn RÚV og Heimildarinnar, áður Stundin og Kjarninn, fá birta ákæru næstu tvær vikurnar vegna aðildar að byrlun, gagnastuldi, stafrænu kynferðisofbeldi og broti á friðhelgi tveggja starfsmanna Samherja, Páls Steingrímssonar og Örnu McClure. Eyþór Þorbergsson aðstoðarsaksóknari lögreglunnar á Norðurlandi eystra staðfesti í viðtali við danska blaðamanninn Lasse Skytt að ákærur yrðu birtar fyrir lok mánaðar.“
  • „Sjötti sakborningurinn er veika konan sem blaðamennirnir fengu til að byrla Páli, stela  síma  hans á meðan skipstjórinn var í öndunarvél og færa blaðamönnum sem biðu ránsfengsins á Efstaleiti...“

27. febrúar 2023:

  • „Nýr vitnisburður, og gögn sem styðja þá frásögn, sýna fram á að blaðamennirnir hafi tekið þátt í að skipuleggja byrlunina, verið með í ráðum þegar í upphafi.“
  • „Tölvupóstar sem staðfesta aðild blaðamanna að undirbúningi tilræðisins eru ekki lengur til. Þeim var eytt.“
  • „En það bráðlá á að Aðalsteinn færi yfir á Stundina til að vinna úr stolnum gögnum er kæmu á RÚV. Þá átti bara eftir að byrla skipstjóranum og stela síma hans þegar Aðalsteinn flutti blaðamennsku sína af RÚV yfir á Stundina.“

21. mars 2023:

  • „Það er einnig þekkt staðreynd að varaformaður BÍ, Aðalsteinn Kjartansson, var fluttur af RÚV á Stundina...“
  • „Rök standa til að blaðamenn hafi skipulagt byrlun gagngert til að komast yfir síma skipstjórans.“
  • „Tímann notuðu þeir til að hylja slóðina, eyða gögnum.“

22. mars 2023:

  • „Blaðamennirnir voru vel meðvitaðir um að hafa framið alvarlegt lögbrot og kappkostuðu að eyða sönnunargögnum.“
  • „Blaðamenn RSK-miðla nýttu sér yfirburða stöðu sína og virðast hafa haft öll ráð veiku konunnar í hendi sér.“

14. apríl 2023:

  • „RSK-miðlar nýttu sér skotleyfið áður en það var gefið út. Þeir misnotuðu andlega veika konu til að byrla og stela.“

Uppfært: Bætt hefur verið við fréttina ummælunum sem dæmd voru ómerk og nánari skýringum úr dóminum á því hvaða ummæli voru dæmd ómerk og hver ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert