Ætlar ekki að láta skoðanakannanir ráða för

Líf og fjör var á opnun kosningamiðstöðvar Höllu í dag.
Líf og fjör var á opnun kosningamiðstöðvar Höllu í dag. mbl.is/Óttar

Á þriðja hundrað manns sóttu opnun kosningamiðstöðvar Höllu Tómasdóttur við Ármúla 13 fyrr í dag. Halla segir skoðanakannanir ekki ráða för heldur samtalið við fólkið í landinu.

„Við erum að finna mjög sterk og jákvæð viðbrögð. Ég hef nú sagt áður að ég hafi séð það svartara, ætli það hafi ekki verið 45 dögum fyrir kosningar síðast þegar ég var með 1% í skoðanakönnunum og endaði í mjög sterkri stöðu undir það síðasta,“ segir Halla í samtali við mbl.is.

Í vikunni komu út kannanir frá Maskínu og Gallup og í þeim mældist Halla með á bilinu 7-7,3% fylgi. Margir voru óákveðnir í þeim könnunum, eins og Halla bendir á.

Samtalið við kjósendur bara rétt að byrja

Halla segir að samtalið við kjósendur sé bara rétt að byrja og bindur hún vonir við að með auknu samtali við fólkið í landinu þá muni hún sækja á. Þá mun Ríkisútvarpið hefja útsendingar á kappræðum þann 3. maí og telur Halla það vera enn frekara tækifæri að ná til fólks.

„Þetta verður örugglega mjög skemmtileg og snörp kosningabarátta. Ég er bjartsýn og við fáum jákvæð viðbrögð alls staðar. Ég lét ekki skoðanakannanir ráða för þá [2016] og ég ætla ekki að gera það í dag.“

Halla segir að heilmikið verði um að vera á kosningamiðstöðinni …
Halla segir að heilmikið verði um að vera á kosningamiðstöðinni fram að kosningum. mbl.is/Óttar

Gleði á kosningamiðstöðinni

Hún segir að á kosningamiðstöðinni hafi gefist tækifæri til að tala við stuðningsmenn. Þar ríkti mikil gleði, fólk söng og boðið var upp á pönnukökur og aðrar veitingar sem stuðningsfólk kom með á staðinn.

„Við ætlum að hafa opið og ég er sjálf að fara mikið í ferðir út á land, en þess á milli ætla ég að vera viðstödd svo að fólk geti hitt mig. Við ætlum að hafa opið og heilmikið um að vera fram til 1. júní,“ segir Halla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert