„Geirvörtusmyrsl og vasilín á hæla“

INNLENT  | 17. ágúst | 17:34 
„Ef ég get hlaupið 21 kílómetra þá geta allir hlaupið. Það er engin afsökun,“ segir grínistinn Steindi Jr. Hann kveðst ekki vera mikill hlaupari en ætlar að hlaupa 21 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu

„Ef ég get hlaupið 21 kílómetra þá geta allir hlaupið. Það er engin afsökun,“ segir grínistinn Steindi Jr. Hann kveðst ekki vera mikill hlaupari en er nú búinn að koma sér í klípu og ætlar að hlaupa 21 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn til styrktar Neistanum, styrktarfélagi hjartveikra barna.

Steinda til halds og trausts verða slökkviliðs- og sjúkraflutningamennirnir Loftur Þór Einarsson og Ágúst Guðmundsson sem ætla að hlaupa hálfmaraþon með Steinda. Hann útilokar ekki að hlaupa heilt maraþon á næsta ári en ætlar þó fyrst að sjá hvernig gengur í ár. Hann lumar þó á nokkrum ráðum fyrir hlaupið á laugardaginn og hvetur alla sem vilja til að heita á sig og styrkja Neistann.

Frá ár­inu 2006 hefur slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og farið 10 kílómetra með ein­stak­linga í hjóla­stól. Pálmi Pálmason hefur tekið þátt með slökkviliðinu frá upphafi og segir algjörlega ómissandi að taka þátt í hlaupinu.

Hefur farið í fimm aðgerðir erlendis

María Dís Gunnarsdóttir er átta ára og hefur fimm sinnum þurft að sækja hjartaaðgerðir í Boston og er ein af fáum börnum á Íslandi sem notast við gangráð. Fríða Björk Arnardóttir, móðir Maríu Dísar og framkvæmdastjóri Neistans, segir áheitasöfnunina í Reykjavíkurmaraþoninu skipta sköpum fyrir lítið félag eins og Neistann en undanfarin ár hafa safnast á bilinu 2-3 milljónir Neistanum til handa í áheitasöfnuninni.

Alls hlaupa um 120 manns fyrir Neistann í ár, þar af 19 vaskir slökkviliðsmenn og konur, og ætla mæðgurnar María Dís og Fríða Björk að sjálfsögðu og mæta og hvetja hlauparana á laugardaginn.

Hér má heita á lið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, Steinda Jr. og aðra hlaupara sem safna áheitum fyrir Neistann, styrktarfélag hjartveikra barna.

 

Þættir