Reykingar og offita flýta öldrun erfðaefnis í fólki

Reykingar og offita flýta öldrun svonefndra litningaenda (telomere) í fólki og gerir það líffræðilega séð eldra en jafnaldra þess, í árum talið, sem ekki reykja eða eru ekki of feitir. Er þetta niðurstaða rannsóknar breskra og bandarískra vísindamanna.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC.

Reykingar stytta litningaendana sem nemur 4,6 árum, en offita níu árum. Endarnir stýra frumuskiptingu og sýnt hefur verið fram á tengsl á milli þeirra og öldrunarsjúkdóma.

Endarnir styttast í hvert sinn sem frumur skipta sér uns þeir eru með öllu uppurnir, og þá verður frumuskipting óáreiðanlegri og meiri hætta á að eitthvað fari úrskeiðis er leiði til sjúkdóma. Þetta gerist með náttúrulegum hætti eftir því sem maður eldist.

Niðurstöður rannsóknarinnar birtast í læknaritinu The Lancet. Hún var byggð á gögnum um 1.122 tvíbura sem geymd eru í gagnasafni St. Thomas sjúkrahússins í London.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert