Uppáhellt kaffi er ekki heilsuspillandi

Kaffið sem síað er í gegnum pappírsfílter mun ekki hafa …
Kaffið sem síað er í gegnum pappírsfílter mun ekki hafa slæm áhrif á heilsu manna. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Uppáhellt kaffi eykur ekki hættuna á hjarta- og kransæðasjúkdómum. Það sýnir bandarísk rannsókn sem fylgdist með 128 þúsund manns í 20 ár. Það voru 44 þúsund karlmenn og 84 þúsund konur sem tóku þátt í könnuninni í ýmist 14 eða 20 ár og gátu vísindamennirnir ekki séð neinn mun á þeim sem drukku ekki kaffi og þeim sem drukku allt að sex bollum á dag.

„Það er alveg óhætt að halda áfram að drekka uppáhellinginn sinn,” sagði Ulf de Faire, prófessor við Karolinska institutet í Stokkhólmi um rannsóknina. „Hins vegar er ennþá talin fylgja ákveðin hætta neyslu á öðrum tegundum af „uppsoðnu” kaffi,” sagði De Fair, sem er sérfræðingur á sviði hjarta og kransæða.

Byrjað var að fylgjast með konunum sem tóku þátt í rannsókninni 1976 en karlmönnunum 1986 og svörðu þau spurningum um neysluvenjur sínar og hreyfingu fjórða hvert ár.

Dagens Nyheter segir að þetta sé ein besta rannsókn af þessu tagi sem gerð hefur verið, en spurningin um áhrif kaffis á heilsuna hefur rokkað fram og til baka eftir mismunandi rannsóknum. Hefur kaffi ýmist þótt hafa holl áhrif, ákaflega óholl áhrif eða engin alls.

„Það er erfitt að komast að niðurstöðu í þessu máli, en þessi rannsókn er sú stærsta og besta sem gerð hefur verið,” sagði de Faire. Læknarnir sem gerðu könnunina komust að þeirri niðurstöðu að fólk sem drekkur mikið af kaffi er upp til hópa fólk sem einnig reykir, drekkur áfengi og hreyfir sig minna en aðrir. Allt eru þetta þættir sem hafa neikvæð áhrif á hjartastarfsemina. En eftir að þeir höfðu rannsakað áhrif hinna áhættuþáttanna, þá komust þeir að þeirri niðurstöðu að það væri engin aukin hætta í kjölfar kaffidrykkjunnar.

Samkvæmt frétt Dagens Nyheter mun rannsóknin einungis hafa náð yfir fólk er drakk kaffi sem var hellt upp á í gegnum pappírsfilter. Í ljós hefur komið kaffi, sem ekki er síað í gegnum pappír eins og expressó og þrýstikönnukaffi, hefur sýnt fram á aukna blóðfitu af gerðinni LDL, sem er talin slæm og getur aukið hættuna á hjarta- og kransæðasjúkdómum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert