David Attenborough heiðursdoktor við HÍ

David Attenborough.
David Attenborough.

Á hátíðarsamkomu við brautskráningu kandídata frá Háskóla Íslands í dag 24. júní var David Attenborough sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við raunvísindadeild skólans.

David Attenborough fæddist í London 8. maí 1926. Hann fékk áhuga á náttúrufræði á unga aldri og hóf söfnun steingervinga. Eftir að hann lauk prófi frá háskólanum í Cambridge í náttúrufræðum gekk hann í sjóherinn, en snéri sér síðan að þáttagerð við Breska ríkissjónvarpið. Hann varð stjórnandi BBC 2 og síðar forstjóri þáttagerðar við BBC 1 og BBC 2 sjónvarpsstöðvarnar. Hann hafnaði boði um að verða aðalforstjóri BBC og snéri sér þess í stað árið 1972 að gerð náttúrulífsþátta, þar sem beitt er vísindalegri nákvæmni við að festa á filmu líf dýra og plantna, þannig að sem flestir þættir í lífi þeirra, vistfræði, þróun og lífsháttum komi skýrt fram. Hann hefur gert 20 raðir náttúrulífsþátta og skrifað 21 bók, þar sem hann kynnir bæði leikum og lærðum ferla í náttúrunni, vistfræði dýra og plantna og þróun lífs. Hann hefur náð til mörg hundruð milljóna manna, og er talið að 300 milljónir manna hafi séð þáttaröðina Lífið á jörðinni. Með vissu má segja að enginn annar maður hafi nokkurn tíma miðlað náttúrufræði til jafnmargra og David Attenborough, að því er fram kemur á vef Háskóla Íslands.

Sir David Attenborough hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir störf sín, m.a. var hann aðlaður af Elísabetu II Bretadrottningu og drottningin veitti honum einnig þann heiður að sæma hann Order of Merit, en aðeins 24 menn eru í þeim hópi á hverjum tíma. Hann hefur fengið verðlaun og viðurkenningar fyrir þætti sína og bækur og ennfremur var forsögulegt dýr nefnt eftir honum 1993. Var það skriðdýr frá miðlífsöld sem hafði verið ranggreint til flokks og nefndi Robert Bakker tegundina Attenborosaurus conybeari til heiðurs David Attenborough.

David Attenborough hefur tekið mikinn þátt í umræðu um umhverfismál frá 1980 og sýnt í þáttum sínum og bókum hvernig maðurinn hefur farið með búsvæði og vistkerfi og reyndar lífríki allt á jörðinni. Hann styður BirdLife International í að stöðva dráp á albatrossum í langlínuveiðum. Hann hefur stutt WWF í baráttu fyrir 22 milljóna hektara regnskógafriðlandi á Borneo og hann er varaforseti Fauna and Flora International," að því er segir á vef HÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert