Tölvuveiru lætt inn í tölvur með aðstoð SMS-skilaboða

Lögreglan í Reykjavík rannsakar nýlegt mál þar sem verulegri fjárhæð var stolið í gegnum netbankaaðgang einstaklings og hún millifærð á reikning erlendis. Rökstuddur grunur er um að við verknaðinn hafi verið notuð tölvuveira sem tengist fjölda SMS-skilaboða sem landsmenn fengu send á farsíma sína frá erlendri stefnumótasíðu í júnímánuði.

Ef farið var eftir þeim leiðbeiningum, sem var að finna í þessum skilaboðum, var hætta á að tölva viðkomandi smitaðist með svokölluðum „bakdyrum”. Við það geta óviðkomandi aðilar mögulega nýtt sér tölvuna án vitneskju eiganda hennar og fylgst jafnframt með innslætti leyniorða inn á öruggar síður eins og netbanka, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.

Þeir sem kynnu að hafa farið eftir þessum leiðbeiningum eru hvattir til að yfirfara viðkomandi tölvur með veiruvarnarhugbúnaði og kanna jafnframt hvort þær hafi nýjustu öryggisuppfærslur á stýrikerfum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka