Horfði á sjónvarpið frekar en að taka við verðlaunum

Grigory Perelman horfði frekar á sjónvarpið en að taka við …
Grigory Perelman horfði frekar á sjónvarpið en að taka við æðstu verðlaunum stærðfræðinnar. Reuters

Rússneski stærðfræðingurinn Grigory Perelman tók í dag ekki við einni af stærstu viðurkenningum í heimi stærðfræðinnar, Fields heiðursorðunni, hann sagði AP fréttastofunni að hann hefði verið að horfa á sjónvarpið.

Fields heiðursorðunni var úthlutað á stærðfræðiráðstefnu í Madrid í dag, Perelman var meðal þeirra fáu sem hlutu hana en hann kaus að vera fjarverandi. „Ég segi ykkur ekki neitt, ég mun ekki einu sinni segja ykkur af hverju ég neita að tala um verðlaunin,” sagði hann er blaðamaður AP fréttastofunnar hringdi í hann í íbúð hans í Pétursborg.

Í viðtali sem birtist í New Yorker Magazine í gær sagði hann þó að hann óttaðist að hljóta Fields heiðursorðuna sem er líkt við Nóbelsverðlaunin í stærðfræði, sökum þess að þá yrði hann tilneyddur til að tjá sig um hluti eins og siðfræði meðal stærðfræðinga.

„Þegar ég var ekki áberandi gat ég valið: annað hvort að gera eitthvað ljótt (valda uppþoti) ... eða ef ég gerði það ekki að láta koma fram við mig eins og gæludýr. Nú þegar ég er orðinn áberandi get ég ekki verið gæludýr og ekki aðhafst neitt. Þess vegna varð ég að hætta,” sagði Perelman.

Hann er sagður vera í sérflokki sérvitringa og hlaut hann Fields heiðursmerkið fyrir að leysa fræga stærðfræðiþraut sem Jules Henri Poincare setti fram fyrir rúmri öld og henni fylgir fjárhæð upp á 9.500 bandaríkjadali.

Perelman gæti einnig hlotið eina milljón bandaríkjadala sem Cray Foundation hefur heitið þeim sem leysir þessa frægu stærðfræði þraut sem er talin vera ein af sjö stærstu gátum stærðfræðinnar. Perleman setti fram sína lausn 2003 og hafa stærðfræðingar ekki getað fundið neitt að henni, ef enginn getur afsannað tilgátu Perelmans innan tveggja ára er milljónin hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert