Vísindamenn leita skýringa á vellíðunaráhrifum ósnortinnar náttúru

Það getur haft áhrif á hjartsláttinn og aukið vellíðan að upplifa ósnortna náttúru. Norskir vísindamenn ætla nú að reyna að útskýra þessi áhrif sem náttúran hefur á fólki, og komast að því hversu mikla bót megi finna, bæði fyrir einstaklinga og samfélagið í heild, með því að leita út í náttúruna.

Frá þessu greinir norski vísindavefurinn forskning.no.

Rannsóknir á hjartslætti og öðrum mælanlegum, líkamlegum þáttum hafa leitt í ljós jákvæð tengsl á milli náttúruupplifunar og heilsufars. Einnig hafa komið fram jákvæð áhrif á mat fólks á eigin heilsufari og lífsgæðum.

Breyting verður á hjartslætti og vellíðan eykst við að horfa á myndir af náttúrunni, horfa yfir fallegt landslag, ganga í gegnum garð eða grænan reit í borgarumhverfi.

Það eru vísindamenn við Umhverfis- og líffræðiháskólann (UMB) í Noregi sem ætla nú að reyna að mæla það hversu heilsubætandi það sé fyrir einstaklinga og samfélagið að gefa fólki kost á að upplifa náttúruna.

Áhrif náttúruupplifunar verða m.a. mæld með hjálp sýndarveruleika. Mæla á líkamleg og sálræn áhrif mismunandi landslags og umhverfis á fólk. Þetta verður gert í sýndarveruleikastúdíói. Með þessu er ætlun vísindamannanna að komast að því hvaða þættir það eru sem hafa mest jákvæð áhrif á heilsufar fólks.

Stjórnandi rannsóknarinnar, Gary Fry, segir það hafa komið sér verulega á óvart að ekki skuli hafa reynst meiri munur á áhrifunum sem fólk varð fyrir af myndum af náttúrunni og því að vera í raunverulegu náttúruumhverfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert