Heilastarfsemin frábrugðin í siðblindum

Heilastarfsemin í siðblindu fólki er frábrugðin heilastarfseminni í öðru fólki, að því er vísindamenn segja. Í heila hinna siðblindu er minni starfsemi í þeim stöðvum sem tengjast mati á tilfinningatjáningu með svipbrigðum, að því er fram kemur í vísindagrein í British Journal og Psychiatry.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC.

Einkum var áberandi að hinir siðblindu sýndu minni viðbrögð við svipbrigðum sem tjá ótta. Höfundar rannsóknarinnar, sem starfa við geðlæknadeild Kings College í London, segja að þetta kunni að útskýra að nokkru leyti hvað valdi siðblindu.

Siðblinda einkennist af árásarhneigð og andfélagslegum persónueinkennum, og skorti á hluttekningu. Þeir sem haldnir eru siðblindu sýna engin merki iðrunar eða sektarkenndar þótt þeir fremji voðaverk eins og morð eða nauðganir.

Niðurstöðurnar benda til að taugaboðleiðir í heila siðblindra séu truflaðar með þeim hætti að þeir geti ekki borið kennsl á og brugðist á tilfinningalegum nótum við svipbrigðum og öðrum merkjum um ótta. Það kunni að vera ástæða þess að þeir hafi ekki heimil á atferli sem veldur öðrum ótta.

Vísindamenn segja að þrátt fyrir þessar niðurstöður sé langt í land að hægt verði að meðhöndla siðblindu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert