Hlýnun andrúmsloftsins mun gerbreyta jörðinni á 100 árum

Hlýnunin í andrúmslofti jarðarinnar er svo eindregin að hún mun „halda áfram öldum saman“, og eftir eitthundrað ár verður jörðin mjög frábrugðin því sem hún er nú, segir í skýrslu helstu loftslagsvísindamanna heims sem birt var í dag. En margir eru þeir þó vongóðir um að þjóðir heims grípi nú til ráðstafana sem komi í veg fyrir að allt fari á versta veg.

Í skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) var leitast við að vara við hættunni, án þess þó að valda lamandi ótta - því aðgerðarleysi muni leiða til þess að illa fari.

„Það er ekki of seint,“ sagði ástralski vísindamaðurinn Nathaniel Bindoff, einn höfunda skýrslunnar. Hægt er að forða því versta með því að draga nú þegar úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Fari allt á versta veg má búast við því að ein milljón manna láti lífið af völdum loftslagsbreytinga og kostnaðurinn hlaupi á milljörðum dollara um næstu aldamót, sagði Kevin Trenberth, sem starfar við Loftslagsrannsóknamiðstöð Bandaríkjanna, sem einnig er höfundur skýrslunnar.

Því er nú spáð að yfirborð sjávar muni hækka um 18 til 59 sm fram til aldamóta. Við þetta megi bæta 10-20 sm ef heimskautaísinn haldi áfram að bráðna, eins og nýlega hefur komið í ljós. Verði ekkert gert til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda muni ástandið versna eftir aldamótin. Grænlandsjökull muni þá óhjákvæmilega bráðna og yfirborð sjávar hækka um meira en sex metra.

Það tæki vissulega margar aldir fyrir yfirborðið að hækka svo mikið, sagði Andrew Weaver, við Háskólann í Victoria í Kanada, en það myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir mörg svæði í heiminum, t.d. Flórída, Louisiana, stóran hluta Vestur-Evrópu og SA-Asíu, og einnig Manhattan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka