Segja kosti þunglyndislyfja fyrir börn og unglinga vega þyngra en áhættuna

Höfundar nýrrar, víðtækrar athugunar á þunglyndislyfjum fyrir börn og unglinga segja að jákvæð áhrif meðferðar með slíkum lyfjum vegi mun þyngra en hættan sem sé á að lyfin leiði til sjálfsvígshugleiðinga og -atferlis hjá sumum sjúklingum. Segja höfundarnir niðurstöður sínar benda til að hættan sé minni en niðurstöður bandaríska lyfjaeftirlitsins bentu til fyrir þrem árum.

Eftir að eftirlitið (FDA) birti almenna aðvörun vegna þessarar hættu árið 2004 fjölgaði sjálfsvígum unglinga, og sögðu sumir sérfræðingar að ástæðan kynni að vera sú, að vegna aðvörunarinnar hafi færri en ella þorað að grípa til þunglyndislyfja.

Nýja athugunin byggðist á gögnum úr sjö rannsóknum sem ekki voru teknar með í reikninginn í niðurstöðum FDA frá 2004, þ.á m. tveim stórum rannsóknum á börnum er ekki höfðu verið gerðar þegar FDA aðvörunin var birt.

Lyfin sem rannsökuð voru, þ.á m. Prozac, Zoloft og Effexor, skiluðu bestum árangri gegn kvíða, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, meðalgóðum árangri gegn árátturöskun og sístum, en þó nokkrum, gegn þunglyndi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka