Vísindamenn finna „kryptónít“

Reuters

Málmgrýti sem nýlega fannst í Serbíu reyndist við nánari athugun innihalda sömu efni og eru í „kryptóníti,“ efninu sem lamar Ofurmennið í samnefndum teiknimyndasögum. Segja vísindamennirnir sem uppgötvuðu samsvörunina þetta vera „ævintýralega tilviljun“.

Frá þessu greinir fréttastofan AFP

Í myndinni Ofurmennið snýr aftur, sem frumsýnd var í fyrra, stelur erkióvinur Ofurmennisins, Lex Luthor, kryptónítbroti af Metrópólis-safninu, og á kassann utan um brotið stendur skrifað: Sódíum lithíum bór sílikat hýdroxíð með flúor.

Chris Stanley, steindafræðingur við Náttúrusögusafnið í London, segist hafa notað efnaformúlu málmsins til að leita á vefnum og sér til mikillar undrunar hafi hann komist að því að sama formúlan hafi verið notuð í myndinni um Ofurmennið.

Málmgrýtið sem fannst í Serbíu hefur verið nefnt jaðarít. Það inniheldur reyndar ekki neitt flúor, segir Stanley, og er hvítt, en ekki grænt eins og kryptonítið, en að öllu öðru leyti samsvari efnasamsetning þess hinu skáldaða kryptoníti.

Fjallað verður um jaðarít í vísindaritinu European Journal of Mineralogy síðar á árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert