Telja sig hafa fundið eitt fyrsta fórnarlamb skotvopna í Vesturheimi

Höfuðkúpan með skotgatinu.
Höfuðkúpan með skotgatinu. AP

Vísindamenn hafa fundið mannabein sem þeir telja vera af einu fyrsta fórnarlambi skotvopna í Vesturheimi. Fundust beinin í fjöldagröf skammt frá Lima í Perú, en á höfuðkúpunni er gat og smásjárskoðun á henni leiddi í ljós málmleifar. Í gröfinni voru jarðneskar leifar 72 sem vísindamennirnir telja hafa verið Inka sem spænskir landvinningamenn hafi myrt fyrir 500 árum.

„Það getur verið að Evrópu menn hafi myrt aðra Inka eða frumbyggja á undan þessum, en þetta er elsta tilvikið sem við höfum rekist á hingað til,“ sagði perúski fornleifafræðingurinn Guillermo Cock, sem stjórnaði uppgreftri við Lima, að því er BBC hefur eftir Washington Post.

Meinafræðingur sem tók þátt í rannsókninni segir að reynt hafi verið að útiloka alla aðra möguleika á orsökum gatsins á höfuðkúpunni, svo sem stein úr slöngvivað, spjót eða sleggju. Málmleifarnar á kúpunni þóttu taka af vafa.

Talið er að beinin séu af Inka er tekið hafi þátt í umsátri um Lima árið 1536.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert