Hraðbankinn 40 ára

Fjörutíu ár eru í þessari viku frá því að fyrsti hraðbankinn var settur upp í Barclays bankanum í Enfield í norðurhluta Lundúna. Flestum þykir sjálfsagður hlutur að geta tekið út sitt eigið fé, hvar og hvenær sem er. Það er Bretanum John Shepherd Barron að þakka að þetta er hægt, en hann fékk þá hugmynd meðan hann lá í baði heima hjá sér, að það hlyti að vera einhver leið að nálgast fé hvar sem er.

Shepherd-Barron byggði hönnunina á súkkulaðisjálfsala og kynnti fyrir yfirmönnum Barclays. forstjóri bankans sannfærðist undir eins og var fyrsta vélin sett upp í Enfield fyrir fjörutíu árum. Greiðslukort höfðu ekki verið fundin upp svo notast var við eins konar ávísanir sem mettaðar voru með kolefni 14, sem er lítilsháttar geislavirkt efni. Vélin kannaði ávísunina og bar hana saman við PIN-númer.

PIN-númerið er einnig uppfinning Shepherd-Barron, hann hugðist fyrst notast við sex stafa tölur, svipaða og kennitölu sína úr breska hernum, eiginkona hans sagðist hins vegar við kvöldverðarborðið aðeins geta munað fjögurra stafa tölu, sem varð svo úr.

Vélin greiddi árið 1967 aðeins út 10 pund í einu, en uppfinningamaðurinn segir að sú upphæð hafi vel dugað fyrir villtri helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert