Eignaðist eineggja þríbura; líkurnar einn á móti 200 milljónum

Bresk kona eignaðist eineggja þríbura á mánudaginn, en slíkt er afar fátítt og mun ekki gerast nema einu sinni af hverjum 200 milljónum fæðinga, að sögn læknis konunnar. Hún hafði ekki gengist undir tæknifrjóvgun. Börnin voru öll stúlkur og hafa hlotið nöfnin Amy, Kim og Zoe.

Þær komu í heiminn í Feldkirch í Austurríki, og voru teknar með keisaraskurði. Móðir þeirra er 25 ára. Hver stúlka um sig vóg um hálft annað kíló. Læknir móðurinnar, Peter Schwärzler, sagði að líkurnar á að eignast eineggja þríbura án tæknifrjóvgunar séu einn á móti 200 milljónum.

Stúlkurnar voru boðnar velkomnar í heiminn á 33 viku meðgöngunnar, en Schwärzler sagði að lengri meðganga yki verulega hættuna á fósturláti.

Móðirin og stúlkurnar verða á sjúkrahúsi næstu vikurnar. Stúlkurnar eru enn á gjörgæslu, en sjúkrahúsið hefur tilkynnt að fjölmiðlar fái að taka myndir af þeim ef allt gangi að óskum, en til að byrja með verði engar nánari upplýsingar veittar um móður og börn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert