Heyra „bensínstöðvar“ brátt sögunni til?

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, velti því fyrir sér í dag, er hann vígði fyrstu lífetanóldæluna á Íslandi, hvort ekki yrði brátt að hætta að tala um „bensínstöðvar,“ og finna eitthvað annað orð í staðinn, eftir því sem fleiri orkugjafar en bensín og díselolía fengjust á bíla.

Eldsneytið sem fæst úr dælunni, sem er við Álfheimana í Reykjavík, er 85% lífetanól, og 15% bensín. Lífetanól er vínandi, sá sami og er í bjór og víni, en mun hreinni. Það kemur frá Svíþjóð, þar sem það er framleitt úr afgöngum í trjáiðnaði. Í Brasilíu er lífetanól framleitt úr sykurreyr, og í Bandaríkjunum úr maís.

Það eru Olís og Brimborg sem hafa tekið höndum saman um lífetanólið, og segja að næst verði hugað að möguleikum þess að fjölga dælum og flytja inn fleiri bíla sem ganga fyrir þessu nýja eldsneyti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert