Lausn án lyfja fyrir ofvirk leikskólabörn

Bökunarklukka, sem oftar sér til þess að maður brenni ekki kökuna í ofninum, gegndi óvæntu hlutverki í lífi þriggja ára gamals drengs frá Pennsylvaníu, Eddies Fitzgeralds, sem er greindur með athyglisbrest með ofvirkni (ADHD). Með því að telja niður í öllum athöfnum piltsins, bæði þeim leiðinlegu og skemmtilegu, komst meiri regla á daginn og þannig hafði hann betri stjórn á köstunum. Nýleg rannsókn sýnir fram á að einföld aðferð – eins og tímatakan – geti gefið yngstu þolendum ADHD lausn án lyfjagjafar. Þetta kemur fram á fréttavef AP.

Móðir Eddies Fitzgeralds segist hafa verið vantrúuð í fyrstu þegar henni var rétt bökunarklukka til að takast á við ofvirknina en byrjaði á að telja niður tímann í því sem Eddie þótti skemmtilegt: "Fimm mínútur þangað til við förum af leikvellinum... fjórar..." lýsir hún. Síðar hafi honum orðið ljóst að tíminn sem fór í að gera eitthvað "leiðinlegt" tók líka enda. Eddie er nú í fyrsta bekk og sækist eftir viðurkenningu.

Rannsóknin, sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin fjármagnaði, var gerð á fimm árum og tók til 135 barna á leikskólaaldri með augljós einkenni ADHD. Gerðar voru tilraunir á tveimur hópum; í þeim fyrri fengu foreldrar leiðsögn og þeim seinni fór leiðsögn einnig fram heima hjá fjölskyldunni og í leikskólanum.

Hver er svo aðferðin? Áhersla er lögð á settar reglur og venjur og að börnunum sé frekar umbunað fyrir góða hegðun í stað þess að refsa fyrir slæma hegðun. Beina þarf þessari miklu orku í ákveðinn farveg og t.a.m. láta barn sem getur alls ekki setið kyrrt í söngstund fá hljóðfæri til að spila á meðan hinir syngja.

Rekin úr leikskólanum

Þeir sem stóðu að rannsókninni undirstrika mikilvægi þess að taka sem fyrst á vandanum þar sem mikil hætta sé á að barnið lendi í erfiðleikum í skóla og eigi erfitt með að eignast vini. Talið er að á milli 3 og 5% barna á skólaaldri séu með ADHD og 1-4% barna á leikskólaaldri.

Á hinn bóginn viðurkenna rannsóknarmennirnir að greining sé vandasamt verk, augljóst sé að mörg ung börn séu hvatvís og eigi erfitt með að einbeita sér. Lykilatriðið sé að greina hvenær sum þeirra fari yfir strikið. Þau börn sem fái þessa greiningu séu svo hamslaus að allt eins megi búast við að þau verði rekin úr leikskólanum.

Lyf við athyglisbresti með ofvirkni eru almennt ekki talin góð lausn hjá svo ungum börnum vegna tíðari aukaverkana, t.d. hægari líkamsvaxtar. Menn fagna því niðurstöðum rannsóknarinnar sem sýna fram á að eftir árið dró verulega úr hegðunarvandamálum hjá 30% barnanna og þeim gekk betur að læra hluti og skilja.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert