Hægt væri að minnka bensínnotkun um 5% í einu vetfangi

Hægt væri að minnka bensínnotkun um fimm eða jafnvel tíu prósent með því að blanda bensín með etanóli í þessu hlutfalli, án þess að gera þyrfti nokkrar breytingar á bílum. Að sama skapi myndi draga úr mengun af völdum bensínbrunans.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, vígði í gær fyrstu lífetanóldæluna á Íslandi, þar sem selt er eldsneyti sem er að 85% etanól og 15% bensín. Til að bílar geti gengi fyrir slíkri blöndu þurfa þeir að vera nokkuð frábrugðnir hefðbundnum bensínbílum, en munurinn sést þó ekki utan á þeim.

Hann er aðallega fólginn í fullkomnari vélartölvu, sem þarf að skynja hlutfall etanóls og bensíns í eldsneytinu í tanki bílsins, og skipta þarf um efni í þeim hlutum bílsins sem eldsneytið kemst í snertingu við, þar sem meiri tæringarhætta er fylgjandi lífetanólinu en bensíni.

Bílaumboðið Brimborg hefur flutt inn tvíorkubíla frá Volvo og Ford, og segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, að það eigi eftir að koma í ljós hvort markaður sé fyrir slíka bíla. Veiti stjórnvöld ívilnanir, líkt og veittar hafi verið fyrir aðra vistvæna bíla, gætu etanólbílar jafnvel orðið ódýrari en hefðbundnir bensínbílar.

Egill segir að bílar sem ganga fyrir lífetanólblöndu séu ekki kraftminni en bílar sem ganga fyrir bensíni, og gætu þvert á móti orðið kraftmeiri, þarsem oktantala etanólsins sé hærri en bensíns. Hann telur ennfremur, að lítrinn af lífetanóli geti orðið ódýrari en bensínlítrinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert