Inkabörn valin til fórnar ári áður en fórnarathöfnin fór fram

Rannsóknir á frosnum líkamsleifum Inkabarna, sem fórnað var í Perú um 1500, benda til þess að börnin hafi verið valin til fórnar um ári áður en fórnarathöfnin fór fram og að þau hafi verið alin á höfðingjafæði síðasta æviár sitt. Þá benda rannsóknirnar til þess að börnunum hafi verið gefin deyfilyf og þau síðan skilin eftir til að deyja. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Greint er frá rannsóknunum í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences en rannsökuð voru hár af höfðum fjögurra barnslíka og innihaldi taska sem með þeim voru. Sýna rannsóknirnar að hár barnanna hefur verið skorið ári áður en þeim var fórnað og aftur hálfu ári fyrir fórnatathöfnina. Þá sýna efnasambönd, sem greindust í hárinu, að börnin hafi að mestu nærst á kartöflum þar til ári áður en þeim var fórnað en að síðasta árið hafi þau lifað á korni og lamakjöti að höfðingjasið.

„Að teknu tilliti til þeirrar undraverðu breytingar sem greinilega varð á mataræði barnanna og táknrænum hárskurði má draga þá ályktun að einhvers konar athafnir hafi farið fram sem mörkuðu breytingar á stöðu barnanna,” segir Andrew Wilson, sérfræðingur við háskólann í Bradford á England sem stjórnaði rannsókninni.

Þá segir hann að svo virðist sem börnin hafi varið síðustu þremur til fjórum mánuðum ævi sinnar á göngu upp í fjöllin þar sem þeim var síðan fórnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert