Breyttu kynhneigð orma með því að breyta geni í þeim

Þegar geni í heilanum á kvenkyns ormum var breytt breyttist kynhneigð þeirra, að því er bandarískir vísindamenn greina frá. Eftir að geninu hafði verið breytt fóru kvenormarnir að laðast að öðrum kvenormum. Rennir þetta stoðum undir þá kenningu að kynhneigð sé eðlislæg.

Það voru vísindamenn við Heilarannsóknastöðina í Háskólanum í Utah í Bandaríkjunum sem komust að þessu. Greina þeir frá niðurstöðum sínum í vísindatímaritinu Current Biology.

Kveikt var á geni í kvenormunum sem gerir að verkum að líkaminn þroskast eins og líkami karlorma, en einungis var kveikt á geninu í heilanum. Þetta leiddi til þess, að ormarnir höfðu áfram kvenlíkama en hegðuðu sér eins og karlormar.

„Þetta bendir til þess að kynhegðun sé skráð í genin,“sagði Erik Jorgensen, framkvæmdastjóri vísindarannsókna við Heilarannsóknastöðina. Aftur á móti kvaðst hann ekki telja að þessar niðurstöður myndu veita svar við þeirri spurningu hvað ákvarði kynhneigð fólks. „Heilinn í fólki er margfalt flóknari en heilinn í ormi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert