Hlýnun jarðar er staðreynd

Formaður Vísindanefndar SÞ, Rajendra Pachauri.
Formaður Vísindanefndar SÞ, Rajendra Pachauri. Reuters

Hlýnun jarðar er staðreynd, og vísindaleg vissa um loftslagsbreytingar af mannavöldum hefur aukist, segir m.a. í samantekt Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna á fjórðu yfirlitsskýrslu sinni um loftslagsbreytingar. Vikulöngum fundi nefndarinnar lauk í Valencia á Spáni í dag.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Umhverfisráðuneytinu.

Samantektin er ætluð stefnumótendum og í henni eru dregnar saman helstu upplýsingar um stöðu vísindalegrar þekkingar á loftslagsbreytingum – orsökum þeirra, umfangi og afleiðingum, en einnig varðandi aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum og aðlagast þeim. Skýrslan hefur komið út í þremur áföngum á þessu ári og er byggð á vinnu 2.500 vísindamanna. Hún er því viðamesta vísindalega samantekt sem gerð hefur verið um loftslagsbreytingar.

Meginniðurstöður nefndarinnar eru þessar: Hlýnun jarðar er staðreynd. Vísindaleg vissa um loftslagsbreytingar af mannavöldum hefur aukist. Spáð er 1,8-4°C hlýnun á þessari öld. Sjávarborð mun hækka um aldir; Norður-Íshafið verður nálega íslaust á sumrin fyrir aldarlok. Golfstraumurinn mun veikjast, en litlar líkur eru á stórfelldum breytingum á straumakerfi hafsins. Losun gróðurhúsalofttegunda heldur áfram að aukast. Miklir möguleikar eru á að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á hagkvæman hátt. Aðgerðir næstu 2-3 áratugi til að draga úr nettólosun skipta miklu um árangur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert