Frumbyggjar Ameríku afkomendur eins hóps frá Asíu

Ný erfðafræðirannsókn rennir stoðum undir þá kenningu að frumbyggjar í Ameríku séu afkomendur eins hóps sem kom frá Asíu, fremur en margra hópa þaðan.

Erfðafræðirannsóknin var gerð við Háskólann í Michigan og voru niðurstöður hennar birtar í gær. Rannsökuð voru gen úr frumbyggjum Norður- og Suður-Ameríku og úr tveim síberískum hópum.

Vísindamennirnir komust að því, að tiltekið, einstakt genaafbrigði var að finna víða í bæði Norður- og Suður-Ameríku, og bendir þetta til þess að allir frumbyggjar Ameríku séu afkomendur eins hóps frá Asíu, en ekki fjölda hópa þaðan, eins og aðrar kenningar hljóða upp á.

Umrætt genaafbrigði hefur hvergi fundist í erfðafræðirannsóknum á fólki í heiminum nema í Austur-Síberíu, sagði í tilkynningu um rannsóknina.

Það hefur lengi verið deiluefni meðal mannfræðinga og fornleifafræðinga hvort frumbyggjar Ameríku séu afkomendur fólks sem fór landleiðina frá Asíu til Ameríku fyrir 12.000 árum, eða fjölda hópa sem fóru að flytjast í bylgjum, á sjó og landi, víðs vegar að úr Asíu og Pólónesíu fyrir allt að 30 þúsund árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert