Vefurinn verður sjónvarpsrás

Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni RIMC 2008, sem snýst um markaðssetningu og viðskipti, er Rob Walk, forstjóri NovaRising. Hann hefur unnið sér orð sem frumherji í nýrri tækni og nýjungum í fjölmiðlun og notkun þeirra við markaðssetningu, til að mynda starfað talsvert með Sky við innleiðingu á gagnvirku sjónvarpi, ruddi brautina fyrir markaðssetningu með tölvupósti á Bretlandi, tók þátt í þróun á 3G þjónustu fyrir Orange og hefur einnig unnið að nýjum verkefnum á sviði netsjónvarps og netsamfélaga fyrir IBM og BBC meðal annars.

Helsta verkefni NovaRising hefur verið vinna að tilraunum með Sky sjónvarpsstöðinni í sambandi við gagnvirkt stafrænt sjónvarp. „Við settum til dæmis upp gagnvirkar auglýsingar sem eru þá þannig að fólk horfði á auglýsingu og gat síðan smellt á hnapp til að fá frekari upplýsingar, en þá birtist einskonar vefsíða, þar sem hægt er að biðja um frekari upplýsingar, fá kannski bækling sendan eða horfa á meira efni um við komandi varning, svo dæmi séu tekin.“

Gagnvirkt sjónvarp

Sky hefur náð miklum árangri í gagnvirku sjónvarpi frá því að því var hleypt af stokkunum fyrir sjö árum og notendur eru nú níu milljónir. Það stendur þjónustunni þó fyrir þrifum, að mati Walks, að myndlykillinn fyrir útsendingarnar er ekki með breiðbandstengingu og því sé það stirðbusalegt og erfitt að auka gagnvirknina, en með nýjum lyklum fjölgi til muna möguleikum á gagnvirkni.

„Sem stendur erum við með í smíðum banka- og tryggingaauglýsingar sem byggjast til að mynda á því að notandi geti til að mynda slegið inn bílnúmer sitt og fengið tilboð um lán eða tryggingu snimmhendis og síðan óskað eftir því að fá frekari upplýsingar, enga getum við miðlað upplýsingum frá notandanum beint til auglýsandans. Við gerum ekki ráð fyrir að fólk sé reiðubúið að kaupa beint í gegnum sjónvarpið en það á eflaust eftir að gerast síðar.“

Netsjónvarp og vefsjónvarp

Rob Walk hyggst fjalla um ný svið fjölmiðlunar þar á meðal í síma og netsjónvarpi og einnig um netsamfélög. Spurður um sjónvarp yfir net segir hann að fjölmörg fyrirtæki séu að reyna að hasla sér völl á þessu sviði og erfitt að segja til um hvernig það eigi eftir að þróast á næstu árum. „Það má í raun skipta sjónvarpi yfir netið í tvennt, annars vegar í netsjónvarp, þar sem fyrirtæki nota nettækni til að miðla sjónvarpsefni, og síðan vefsjónvarp þar sem fólk horfir á sjónvarsefni á netinu.

„Mörg þeirra fyrirtækja sem við höfum unnið með varðandi netsjónvarp horfa mikið til þess hvernig þau geti beint fólki ákveðna leið að efninu, geti tryggt að það fari um gagnarásir sem séu undir stjórn fyrirtækjanna og hægt sér að fylgjast með, en að mínu mati þá snýst þetta fyrst og fremst um sjónvarp ofar netinu,“ segir Walk.

Hjólreiðasjónvarp

Netið breytir ýmsu í miðlun sjónvarpsefnis og ekki síst því að það gerir kleift að sjónvarpa efni sem annars hefði aldrei borgað sig að gera. Walk nefnir sem dæmi að þó að fjallað sé um hjólreiðar í sjónvarpi í Bretlandi og víðar þá hafi ekki verið til nein sérstaka sjónvarpsrás sem helguð sé hjólreiðum – slíkt og þvílíkt myndi aldrei borga sig í hefðbundnu sjónvarpi.

„Því hefur verið haldið fram að það kosti sjö milljónir punda að setja upp sjónvarpsstöð með almennar útsendingar, 700.000 pund að komast inn á útsendinganet Sky, en ekki nema 70.000 pund að setja upp vefsjónvarp. Fyrir vikið er þröskuldur fyrir svo sértækar sjónvarpsrásir orðinn svo lágur að til er sjónvarpsstöðin cycling.tv sem er helguð hjólreiðum. Hún er með svo skýran notendahóp að auglýsendur vilja auglýsa á henni, enda er hún að senda út úti um allan heim.“

Sjónvarp ofan netinu

„Þetta er því gott dæmi um vefsjónvarp og allir þekkja netsjónvarp, hefðbundnar sjónvarpsútsendingar sem miðlað er yfir netið. Að mínu viti flest framtíðin þó í nýrri hugsun sem sameinar þetta tvennt, sjónvarpi ofan netinu“ segir Walk og útskýrir það sem svo að sjónvarpsáhorfandi geti þá horft á sjónvarpsefni af vefnum ekki síður en hefðbundnar útsendingar sem hann nálgast í gegnum loftnet, kapal eða sjónvarp yfir xDSL. Að okkar mati muni ný gerð sjónvarpsmóttakara koma til sögunnar, móttakara sem taka við venjulegum sjónvarpsútsendingum, en veita líka aðgang að öllu því sjónvarpsefni sem hægt er að nálgast á vefnum í dag, hvort sem það eru YouTube-myndbönd, hjólreiðasjónvarp, tónlistarmyndbönd eða hvaðeina. Það má segja að það sé verið að fjölga sjónvarpsrásum með því að bæta vefnum við.“

Sky og BBC ryðja brautina

„Við höfum rætt við ýmis tæknifyrirtæki sem hyggjast fara þessa leið, sem telja sig geta boðið upp á þannig móttakara, en þeir þekkja almennt ekki til efnismiðlunar á vefnum. Sjónvarpsstöðvar eru líka spenntar fyrir því að fara þessa leið, en þar skortir þekkingu á því hvernig vefurinn virkar,“ segir Walk og bendir á að þau fjölmörgu fyrirtæki sem hyggjast hasla sér völl með svokallaðar miðlunarmiðstöðvar, tölvur sem vista myndasafn heimilisins og tónlistina og virka að auki sem sjónvarpsmóttakari og upptökutæki, muni eiga erfitt uppdráttar vegna þess að þau hafi ekki aðgang að efni til að miðla og gera þannig miðstöðvarnar eftirsóknarverðar.

„Það verður örugglega hver höndin upp á móti annarri á næstu árum og mikið á eftir að ganga á áður en einn staðall verður ofan á í vélbúnaði, en hér í Bretlandi munu Sky og BBC eflaust ryðja brautina.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert