Rannsóknir í Íslandsdjúpi

Rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson.
Rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson. Þorkell Þorkelsson

Rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson verður við rannsóknir í Íslandsdjúpi dagana 1. -7. apríl. Rannsóknirnar eru samvinnuverkefni vísindamanna við Applied Physics Laboratory stofnunina í Seattle og háskólann í Maine ríki í Bandaríkjunum, sem einmitt leigja skipið.

Starfsmenn Hafrannsóknarstofnunarinnar taka þátt í þessum rannsóknum þar sem fylgst er náið með blóma þörunga, straumum og ástandi sjávar á afmörkuðu svæði langt suður af landinu í þrjá mánuði. Mælingar fara fram á skipum, með sjálfvirkum tækjabúnaði sem svífur um sjóinn og einnig með fjarkönnun með gervitunglum.

Mælitæki verða sjósett og sökkva þau niður í sjóinn, stíga svo aftur til yfirborðs og senda mælingar um gervitungl í landstöðvar. Þar eru nemar sem mæla ýmsa þætti, s.s. þrýsting, hita, seltu, súrefni, þörunga og svifagnir. Það hefur ekki áður verið fylgst með framvindu gróðurs jafn nákvæmlega á þessum slóðum og er svæðið suður af landinu þekkt fyrir að vera sá staður í heiminum þar sem vöxtur kalkþörunga er hvað mestur. Þessi kalkútfelling skiptir sköpum í kolefnisbúskap jarðar.

Þetta verkefni er styrkt af National Science Foundation, að því er  kemur fram á heimasíðu Hafrannsóknarstofnunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert