Leiðinleg störf setja heilann á sjálfstýringu

Vísindamenn segja að leiðinleg störf valdi því að heilinn fari á eins konar sjálfsstýringu, og það geti leitt til alvarlegra mistaka, sem reyndar megi sjá fyrir með um 30 sekúndna fyrirvara með greiningu á heilastarfseminni.

Frá þessu greinir fréttavefur BBC, en niðurstöður vísindamannanna britast í Proceedings of National Academy of Sciences. Vonast þeir til þess, að hægt verði að búa til viðvörunartæki sem fylgist með heilastarfsemi þeirra sem sinna störfum þar sem mistök geta verið dýrkeypt, eins og til dæmis flugmenn.

Segja vísindamennirnir ennfremur að slíkt tæki gæti reynst einkar vel fyrir þá sem sinna sérlega einhæfum störfum þar sem erfitt sé að halda einbeitingu, eins og til dæmis vegabréfaeftirliti.

Í rannsókninni kom það vísindamönnunum verulega á óvart að 30 sekúndum áður en þátttakandi gerði mistök mátti sjá mjög greinilega breytingu á heilastarfseminni, sagði dr. Stefan Debener við Southampton-háskóla.

„Heilinn fer að spara orku með því að stytta sér leið við sama verkefni. Það dregur úr virkni í framheilanum, og virkni eykst á svæði sem tengist hvíldarstöðu.“

Þetta er ekki til marks um að heilinn sé að sofna, segir Debener. „Sjálfsstýring væri betri líking. Það má draga þá ályktun að tilhneigingin til orkusparnaðar leiði til þess að of mikið sé dregið úr viðleitnin, og það valdi mistökunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert