Stór morgunverður auðveldar megrun

Morgunverðurinn kann að vera mikilvægasta máltíð dagsins ef ætlunin er að fækka aukakílóunum, samkvæmt nýrri rannsókn. Of þungar konur sem neyttu helmings daglegs hitaeiningaskammts fyrri hluta dagsins áttu auðveldara með að léttast en þær sem ekki fylgdu slíku mataræði.

Frá þessu greinir fréttavefur BBC, en höfundur rannsóknarinnar, bandaríski læknirinn Daniela Jakubowicz, skýrði frá niðurstöðum sínum á ráðstefnu í San Francisco nýverið.

Segir hún að lítill morgunverður geti beinlínis aukið löngun í mat, og hefur um áraraðir ráðlagt sjúklingum sínum að borða mikið í morgunmat.

Í rannsókninni sem hún gerði tóku þátt 96 of feitar konur sem ekki hreyfðu sig mikið. Þær sem borðuðu lítinn morgunmat neyttu alls 1.085 hitaeininga á dag, flestar úr fitu og prótíni, og var morgunverðurinn minnsta máltíð dagsins, aðeins 290 hitaeiningar.

Aðrar neyttu alls 1.240 hitaeininga á dag, og var minna hlutfall úr fitu, en meira úr prótíni og kolvetnum. Morgunverðurinn hjá þessum hópi var alls 610 hitaeiningar, en hádegisverður 395 og kvöldmaturinn 235.

Eftir fjóra mánuði virtist fyrrnefnda hópnum ganga betur að léttast, en eftir alls átta mánuði hafði dæmið snúist við, og þær sem borðuðu stóran morgunmat léttust meira.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert