Sparperur lýsa víða leiðina

Sparperur eru ekki nýjar af nálinni
Sparperur eru ekki nýjar af nálinni

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær hefur Evrópusambandið boðað bann við notkun þeirra ljósapera sem hingað til hafa talist hefðbundnar og kallast glóperur, og þeim skipt út fyrir svokallaðar sparperur. Breytingin er þó ekki eins róttæk og hún kann að hljóma því sparperurnar eru þegar nokkuð útbreiddar.

Verði af banninu verða allar 100 vatta ljósaperur fjarlægðar úr hillum verslana í aðildarríkjum Evrópusambandsins næsta haust, en 25 vatta perur fá að hanga á markaði ögn lengur eða til 2012. Markmiðið er að fyrir lok ársins 2016 hafi allar hefðbundnar glóperur vikið fyrir sparneytnari perum, sem áætlað er að geti minnkað orkunotkun til lýsingar um meira en 30%. Með minni rafmagnsnotkun má einnig draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Þótt reglugerðin eigi ekki við Íslendinga að öllu óbreyttu ættu þeir þó að geta tekið þátt í umskiptingunni sársaukalaust ef marka má fréttatilkynningu frá Jóhanni Ólafssyni & Co., umboðsaðila OSRAM á Íslandi. Þar kemur fram að innan við 5% af sölu OSRAM eru hefðbundnar glóperur, en langstærstur hluti er sala annarra ljósgjafa, s.s. halogenpera, flúrpera og ljósdíóða. OSRAM hefur lengi unnið að þróun orkunýtinna ljósgjafa og fékk m.a. í síðustu viku þýsku sjálfbærniverðlaunin fyrir rannsóknar- og þróunarvinnu á sviði orkunýtingar. Án þess að hafa sérstaklega ætlað sér að hlífa umhverfinu er því ekki ósennilegt að margir Íslendingar hlíti nú þegar væntanlegum reglum Evrópusambandsins um notkun sparpera.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert